146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

störf þingsins.

[15:13]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Skýrslur og leyndarhyggja í tengslum við þær var gert að umtalsefni í þingsal í gær enda ekki að undra því að tveimur veigamiklum skýrslum hefur verið haldið leyndum fyrir almenningi. Mig langar að nýta tímann nú til að tala um enn eina skýrsluna sem allt lítur út fyrir að hafi verið geymd undir stól, ekki bara eins umhverfisráðherra heldur undir stól tveggja ráðherra umhverfismála. Forveri núverandi umhverfisráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, pantaði skýrslu um loftslagsmál hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands fyrri part árs 2015 í þeim tilgangi að íslensk stjórnvöld gætu mótað og kynnt markmið sín um samdrátt í losun fyrir Parísarráðstefnuna sem haldin var í nóvember sama ár. Samkvæmt mínum heimildum dróst skýrslugerðin en skýrslan er nú sannarlega tilbúin og hefur verið kynnt bæði fráfarandi umhverfisráðherra og núverandi umhverfisráðherra. Af hverju þær hafa báðar ákveðið að sitja á þessari skýrslu er mér og vonandi öðrum hulið enda ætti birting skýrslu af þessum toga svo sannarlega að þjóna hagsmunum almennings, sér í lagi í svo stórum og mikilvægum málaflokki sem loftslagsmálin eru. Getur verið að tölurnar sem fram koma í skýrslu Hagfræðistofnunar háskólans líti ekki nógu vel út? Er verið að fela eitthvað?

Núverandi ráðherra umhverfismála hefur verið afar misvísandi um það hvort hún hafi séð þá skýrslu eða ekki. Í viðtali við Ríkisútvarpið þann 16. janúar sl., sagði Björt Ólafsdóttir, hæstv. umhverfisráðherra, með leyfi forseta: „Aðeins fengið að kíkja í skýrsluna.“ Nokkrum dögum síðar eða 25. janúar sl. var ráðherrann afar misvísandi í ræðustól Alþingis um hvort hún hefði séð hana eða ekki og sagði í fyrra svari sínu við óundirbúinni fyrirspurn, með leyfi forseta: „Ég hef fengið innsýn í hana og staðan er ekkert voðalega góð.“ Í ræðu sinni í sömu óundirbúnu fyrirspurn sagði hún hins vegar þetta, með leyfi forseta: „Ég hef ekki séð skýrsluna. Ég hef ekki fengið að lesa hana.“ Þetta er allt saman mjög ruglingslegt, hæstv. forseti. Hefur hæstv. umhverfisráðherra séð þessa skýrslu eða ekki? Hvað dregur birtingu hennar?

Markmið Íslands var sent loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna 30. júní 2015 og kom fram í fréttatilkynningu umhverfisráðuneytis frá sama degi að markmið Íslands væri að leitast við að ná sameiginlegu markmiðið með ríkjum ESB og Noregs um 40% minnkun losunar (Forseti hringir.) til 2030. Við hljótum að vera sammála um að sameiginlegt verkefni okkar allra er að gera mun betur í þeim efnum og engin ástæða er til þess að fela (Forseti hringir.) upplýsingar um stöðu loftslagsmála. Það gagnast engum.


Efnisorð er vísa í ræðuna