146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Mánudaginn næstkomandi er dagur leikskólans. Þetta er í tíunda skipti sem haldið er upp á þennan dag, en 6. febrúar er merkisdagur í sögu leikskólakennara því að á þessum degi árið 1950 stofnuðu leikskólakennarar fyrstu samtökin sín. Leikskólar um land allt munu halda daginn hátíðlegan. Hvatningarverðlaunin Orðsporið verða veitt, en Orðsporið er veitt þeim sem hefur þótt skara fram úr í að efla orðspor leikskólans og/eða hefur unnið ötullega í þágu leikskólans. Að mínu mati á hver einasta manneskja sem starfar í leikskólum okkar skilið hvatningarverðlaun á þessum degi.

Leikskólinn er fyrsta skólastigið í skólakerfinu okkar. Kveðið er á um markmið í lögum um leikskóla, með leyfi forseta, í 2. gr.:

„Í leikskólum skal velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi í öllu starfi. Veita skal börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Stuðla skal að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta. Starfshættir leikskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar.“

Leikskólastarfið á undir högg að sækja þrátt fyrir mikilvægt og merkilegt starf sem þar fer fram. Það vantar 1.300 leikskólakennara til starfa í leikskólum og allt of fáir skrá sig í leikskólakennaranám. Ég trúi ekki öðru en að á næsta ári, þegar ég minni þingið á þennan dag að nýju og óska leikskólum til hamingju með daginn, verði þessi tala mun lægri einfaldlega vegna þess að leikskólar eru án efa einn mikilvægasti hlekkurinn í skólakerfinu okkar.

Hér hef ég heyrt marga tala um mikilvægi þess að við stöndum vörð um og eflum menntakerfið. Hluti af því er að efla leikskólakerfið og fjölgun leikskólakennara ætti að vera forgangsmál hjá okkur öllum. Ég mæli með að allir gefi sér augnablik á mánudaginn til þess að heiðra leikskólakennara og starfsfólk leikskóla um landið allt.


Efnisorð er vísa í ræðuna