146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja athygli á málefnum sem varða framfærslu erlendra nema á Íslandi. Skömmu fyrir jól gerðist það að Útlendingastofnun hækkaði tekjuviðmið dvalarleyfa einstaklinga úr 163.000 á mánuði í 180.000. Þessi tala, 180.550 kr., er ekki tilviljun. Í lögum um útlendinga er heimild fyrir ráðherra til að setja skilyrði um framfærslu útlendinga og sú heimild hefur verið nýtt og tengd við fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar. Það er í sjálfu sér athyglisvert og ég er ekki viss um að borgarfulltrúar í Reykjavík átti sig á þeirri dínamík að meiri fjárhagsaðstoð geri í rauninni erlendum námsmönnum erfitt fyrir.

Þessu öllu óháð er breytingin sett fram með einungis mánaðar fyrirvara og tekur gildi á miðju skólaári. Ég veit að þetta veldur mörgum erlendum nemendum áhyggjum og kvíða. Þeir hafa haft samband við mig.

Í sjálfu sér mætti færa rök fyrir því að upphæðin sem slík væri allt í lagi, það er dýrt að búa á Íslandi. Vandinn er hins vegar sá að margir erlendir nemar búa við skert atvinnuleyfi, mega einungis vinna 15 tíma á viku, og þau skilyrði gera það að verkum að vinnuveitendur hafa einfaldlega ekki fyrir því að ráða fólk með þessum kvöðum sem aftur takmarkar möguleika erlendra nema til að framfleyta sér.

Í þessu máli er það þannig að bæði viðmiðin og síðan 15 klukkustunda hámarkið eru sett með reglugerð þannig að dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra gætu breytt þessu ef þeir vildu. Ég hvet þá til að gera það ellegar hvet ég þingið til að taka þessi mál upp á sína arma til að enginn erlendur námsmaður þurfi að fara heim út af þessum viðmiðum. Það myndi enginn græða á því.


Efnisorð er vísa í ræðuna