146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Tugir Íslendinga féllu fyrir eigin hendi á síðasta ári, flestir þeirra ungir karlmenn. Allt of margir landsmenn hafa verið í þeim sporum að missa son, maka eða vin sem voru orðnir það veikir að þeir sáu ekki lengur tilganginn með lífinu. Sjúkdómurinn hafði tekið yfir og þeir ákveðið að lífið skyldi enda. Tölurnar eru háar, þær eru vondar og þeim verðum við að breyta. Til þess höfum við ýmis tæki og tól — og stefnu sem samþykkt var samhljóða á síðasta kjörtímabili þegar samþykkt var í fyrsta sinn í sögu Alþingis stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum. Fyrir það má hrósa hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra.

Orðum verða þó að fylgja aðgerðir. Ég vil því nýta tækifærið til að brýna fyrir hæstv. heilbrigðisráðherra Óttari Proppé hve mikilvægur þessi málaflokkur er og ekki síður hve mikilvægt það er að stefnunni sé fylgt eftir. Eitt af markmiðum stefnunnar er að halda áfram að auka þekkingu og vitund almennings á málaflokknum. Það er sannarlega mikilsvert, enda hjálpar það við að sporna gegn fordómum og vanþekkingu. Það er nógu erfitt að kljást við sjúkdóminn sjálfan.

En það er ekki nóg að efla umræðuna um geðheilbrigðismál, stjórnvöld verða að leggja hönd á plóg. Það hefur sýnt sig að mikilvægast er að greina og taka á vandamálum af þessum toga á fyrstu stigum, bæði í sjálfu heilbrigðiskerfinu og með félagslegum úrræðum. Í geðheilbrigðisstefnunni er m.a. lögð áhersla á auknar forvarnir en mikilvægi þeirra verður seint tíundað. Auk þess er áréttað að auka þurfi aðgengi fólks að sálfræðiaðstoð innan framhaldsskólanna og heilsugæslunnar og gera heilsugæsluna í alla staði betur í stakk búna til að sinna þessari brýnu fyrsta stigs þjónustu.

Á því stigi, fyrsta stigi vandans, megum við ekki bregðast þeim sem glíma við geðræn vandamál. Ef ekkert er gert getur vandinn fljótt undið upp á sig og versnað til muna. Við þekkjum of mörg dæmi þess.

Frú forseti. Of margir Íslendingar falla fyrir eigin hendi vegna geðsjúkdóma. Við verðum að gera okkur grein fyrir þeim alvarlegu afleiðingum sem þessi ógn hefur í för með sér. (Forseti hringir.) Vilji þingsins er skýr og grunnurinn hefur verið lagður með samþykkt geðheilbrigðisstefnunnar en verkefnið fram undan er að byggja ofan á hann. Ég styð hæstv. heilbrigðisráðherra til góðra verka á þessum vettvangi og veit að velflestir hér inni eru tilbúnir að leggja hönd á plóg.


Efnisorð er vísa í ræðuna