146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi í upphafi segja að ég vil þakka hv. þm. Pawel Bartoszek fyrir ábendingu sem hann kom með hér áðan varðandi óvænt áhrif á tekjuforsendur erlendra stúdenta. Ég held að það sé sjálfsagt að við beinum því til viðkomandi ráðherra að þeir taki þessi mál til endurskoðunar. Ég held að þær reglur sem þarna er um að ræða megi aðlaga þannig að þeim sem hingað eru komnir til að stunda nám verði ekki gert það erfiðara á miðjum skólavetri og forsendum breytt með einhverjum hætti. Hættan í tilvikum af þessu tagi þegar þrengt er að með einhverjum hætti er sú að annaðhvort flosni einhverjir frá námi eða að menn leiti í svarta vinnu eða eitthvað þess háttar. Hvorugt er auðvitað það sem við erum að sækjast eftir í þessu sambandi. Ég held að það sé full ástæða til að taka þetta til endurskoðunar.

Að öðru leyti vildi ég bara nefna í þessari umræðu að ég var svolítið undrandi á ræðu hv. þm. Silju Gunnarsdóttur áðan varðandi formennsku í nefndum. Það lá fyrir að ríkisstjórnarflokkarnir höfðu uppi hugmyndir sem hefðu leitt til þess að stjórnarandstöðuflokkarnir hefðu fengið meiri hlutdeild í stjórn nefnda þingsins en nokkru sinni áður. Um það náðust ekki samningar og ég skora á hana að spyrjast fyrir um það í sínum eigin röðum hvernig stóð á því að það gekk ekki eftir.


Efnisorð er vísa í ræðuna