146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

kjör öryrkja.

[15:51]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Til að styrkja enn frekar stöðu öryrkja og gera umbætur á almannatryggingakerfinu verðum við að byggja á heildstæðri stefnu sem miðar í fyrsta lagi að því að tryggja viðunandi framfærslu öryrkja, í öðru lagi að því að stuðla að meiri endurhæfingu með það að markmiði að auka samfélagslega virkni öryrkja og í þriðja lagi að efla forvarnastarf á vinnumarkaði, í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu sem miðar að því að draga úr nýgengi örorku.

Sem betur fer hefur kaupmáttur öryrkja vaxið jafnt og þétt á síðustu árum, þökk sé m.a. aukinni hagsæld og góðri stjórn ríkisfjármála á síðasta kjörtímabili, en augljóslega þarf að halda áfram á þeirri braut. Minna má þingmenn á í þessu sambandi að framlög til þessa málaflokks í fjárlögum jukust um 10%, tæpa 5 milljarða, milli áranna 2016 og 2017. Þá er fagnaðarefni að ríkisstjórnin stefnir að því að taka upp starfsgetumat. Það er að öllum líkindum árangursríkari leið en núgildandi örorkumat til að stuðla að því að fólk komi aftur inn á vinnumarkaðinn hafi það staðið utan hans um tíma.

Að síðustu, frú forseti, getur það ekki verið látið afskiptalaust að nefna að karlkyns öryrkjum á aldrinum 20–24 ára hafi fjölgað mest allra aldurshópa, um 27% á fimm ára tímabili á árunum 2010–2015. Meginorsök örorku þessa unga fólks er geðraskanir. Þeirri þróun verðum við að snúa við. Ég bind miklar vonir við að fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um aukið aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, m.a. með sálfræðiþjónustu á heilsugæslum og í framhaldsskólum, reynist mikilvægt skref til að auka lífsgæði (Forseti hringir.) og virkni þessa hóps.