146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

kjör öryrkja.

[15:53]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Mig langar til að þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir að koma þessu máli í umræðu. Það er mjög mikilvægt. Staðan í velferðarmálum í dag er skýrt dæmi um skort á framsýni og heildstæðri stefnumótun um hvernig samfélag við viljum byggja. Hver er okkar framtíðarsýn í velferðarmálum? Ég ætla að vera alveg ofurbjartsýn og gefa mér að við sem samfélag sjáum ávinninginn í því að leysa úr læðingi þann gífurlega mannauð sem við búum yfir og skapa jöfn tækifæri og aukið frelsi einstaklingsins til að blómstra innan samfélagsins. Viðunandi framfærsla á ekki að vera ölmusa heldur sjálfsagður réttur allra í samfélaginu, réttur sem gerir þeim sem ekki geta unnið kleift að lifa þrátt fyrir atvinnuleysið og veitir þeim sem geta unnið eða vilja reyna að vinna nauðsynlegt öryggi ef heilsa þeirra bregst eða versnar. Viðunandi framfærsla léttir á því yfirþyrmandi álagi sem fylgir því að vera veikur, þurfa að gefa starfsframa sinn upp á bátinn og því tabúi sem fylgir því að vera öryrki í íslensku samfélagi, álagi sem er að sliga íslenska öryrkja og íþyngir þeim í veikindum þeirra. Við vitum öll hvað áhrif óöryggi og það álag sem því fylgir hefur á heilsu okkar.

Króna á móti krónu skerðing leiðir ekki af sér viðunandi framfærslu heldur fælir fólk frá vinnumarkaðnum þar sem skerðingin klippir gat á öryggisnetið, öryggisnet sem þjónaði varla tilgangi sínum fyrir. Starfsgetumatið virðist hafa það að markmiði að fækka öryrkjum frekar en að hjálpa þeim og hefur sú stefna verið tengd við aukna sjálfsmorðstíðni og aukna notkun þunglyndislyfja í þeim löndum þar sem þetta hefur verið prófað.

Stefna sem tekin er á grundvelli sparnaðar á einum stað í kerfinu án heildstæðrar yfirsýnar er mikil skammsýni. Það að setja fólki skorður og auka álag fram yfir það að auka frelsi til sjálfsákvörðunartöku og til að lifa sómasamlegu lífi á þeirra eigin forsendum þjónar samfélaginu ekki og hefur þær afleiðingar að færa bara til kostnað í kerfinu. Kostnaðurinn færist úr almannatryggingakerfinu yfir í heilbrigðiskerfið eða mögulega refsivörslukerfið. Skynsamlegasta og langsamlega skilvirkasta leiðin til að fækka öryrkjum og þar með minnka kostnað í almannatryggingakerfinu er sú að efla efnahagslegt og félagslegt frelsi einstaklinga í samfélaginu. (Forseti hringir.) Hættum þessari skammsýni og eflum hvert annað til að lifa hér sómasamlegu lífi með gleði, fegurð og ást að leiðarljósi. Það er ekki óskhyggja heldur raunsætt markmið sem algjörlega er hægt að ná ef við bara kjósum það.