146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

kjör öryrkja.

[16:00]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að taka undir þakkir til hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur fyrir að fara fram á þessa sérstöku umræðu hér í dag. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er skýrt fjallað um að allir þeir sem verða fyrir skerðingu á starfsgetu vegna sjúkdóma eða slysa eigi að fá tækifæri til starfsendurhæfingar þegar læknisfræðilegri meðferð og endurhæfingu er lokið. Þetta á þó auðvitað við, og kannski óþarfi að taka það fram, í þeim tilfellum þar sem því verður komið við.

Með því að stuðla að því eins og kostur er að þeir sem á einhverjum tímapunkti verða fyrir skerðingu á starfsgetu nái sér eins mikið á strik og mögulegt er spornum við gegn óþarflega mikilli aukningu í tíðni örorku hér á landi. Auk þess, og það er gríðarlega mikilvægt að hafa það í huga, eykur þátttaka á vinnumarkaði, jafnvel þótt hún sé takmörkuð, samfélagslega virkni og lífsgæði þeirra sem hafa orðið fyrir slíkri skerðingu. Liður í því að ná þessu markmiði er að tekið verði upp títtnefnt starfsgetumat. Þannig verður örorkulífeyriskerfið gert sveigjanlegra sem aftur ýtir undir þátttöku á vinnumarkaði.

Auk þess langar mig að nefna, virðulegur forseti, að það er jafnframt stefna ríkisstjórnarinnar að unnið verði að því að efla sjálfstæði fólks með fötlun, bæði hvað varðar atvinnuþátttöku og samgöngur. Ríkisstjórnin vinnur nú að því í samráði við sveitarfélög að notendastýrð persónuleg aðstoð verði lögfest sem eitt af þjónustuformum fólks með fötlun. Það er nefnilega grundvallaratriði að fólk með fötlun hafi val um að stýra þjónustu sinni sjálft.

Að lokum er vert að nefna að það er metnaðarmál hjá þessari ríkisstjórn að hinni löngu tímabæru innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lokið hið fyrsta enda hefur það dregist allt of lengi.