146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

kjör öryrkja.

[16:02]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Því miður blasir við að það vantar verulega upp á það að bati í þjóðarbúskapnum undanfarin ár og kaupmáttaraukning á vinnumarkaði hafi skilað sér til þeirra sem reiða sig á almannatryggingakerfið um framfærslu. Þar á milli hefur myndast vaxandi bil. Því miður voru breytingar á bæði almannatryggingalögum hvað varðar aldraða og aftur öryrkja í haust sem leið meingallaðar að því leyti til að menn völdu ódýrustu en um leið mjög gallaða leið í báðum tilvikum til að láta það heita svo að þróun lægstu launa væri elt uppi, 280.000 krónurnar, en það eru eins og kunnugt er aðeins þeir aldraðir sem búa einir og fá fulla heimilisuppbót sem ná þessu marki og í tilviki öryrkjanna var nánast öll hækkunin tekin í gegnum hækkun á framfærslutryggingu gegnum lögin um félagslega aðstoð sem aftur skerðist króna á móti krónu fyrir tekjur. Það er ekki hægt að gefa því háa einkunn.

Ég er litlu nær, satt best að segja, um áform núverandi ríkisstjórnar í þessum efnum nema að það eigi að taka upp starfsgetumat í staðinn fyrir örorkumat. Það höfum við heyrt fyrr og það er búið að standa til lengi. Ég held að það verði að vara við þeirri oftrú á starfsgetumat í staðinn fyrir örorkumat að það bæti stöðu þeirra sem fyrir eru í kerfinu, að það hækki fjárhæðir, að það hafi slík áhrif.

Nýgengi örorku er líka áhyggjuefni, sérstaklega meðal ungra karla, en ætla menn að breyta því með starfsgetumati í staðinn fyrir örorkumat? Á ekki að ráðast að rótum vandans? Er það er ekki þar sem uppspretta hans er? Við vitum vel af t.d. veikleikum geðheilbrigðisþjónustunnar og stuðningi við ungt fólk sem á í vanda, þar þarf að takast á við vandann, þar sem uppsprettan er. Flokkunin eftir á er annað mál og leysir ekki þann undirliggjandi vanda.

Þetta snýst um hið stóra samspil greiðslna úr almannatryggingakerfinu, lífeyrisréttinda og annarra tekna. Þar held ég að við séum ekki komin á endastöð og megn óánægja t.d. um (Forseti hringir.) niðurstöðuna um síðustu áramót, að frítekjumark vegna atvinnutekna sé aðeins 25.000 kr. á mánuði. Hvar sem maður fór um í janúar heyrði maður óánægjuna með það. Fólk talaði í stórum stíl um að þetta myndi letja það frá því að afla sér tekna þótt það hefði starfsorku eða möguleika á því.

Ég held að það þurfi að halda áfram að vinna þessi mál af miklum krafti og vonandi gengur eitthvað undan núverandi hæstv. ráðherra í þeim efnum.