146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

kjör öryrkja.

[16:05]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Það er sárt að ekki skyldi vera hægt að ljúka endurskoðun á málaflokki öryrkja í síðustu endurskoðun almannatrygginga sem fram fór á síðasta ári en þar strandaði m.a. á starfsgetumati og viðhorfum til þess. Í umræðunni hefur komið fram að starfsgetumatið ætti að vera einhvers konar refsing til að koma í veg fyrir örorku. Ég lít hins vegar á starfsgetumat fyrst og fremst sem tæki til að mæla getu til virkni og síðan til þess að auka virkni öryrkja á vinnumarkaði. Það er engin lausn að úrskurða fólk til örorku ævilangt. Það er lausn að virkja fólk til starfs í því samfélagi sem það fæðist og býr í. Ég á þá við að virkni sé í félagsstörfum og atvinnu og það leiðir þá til bættrar líðanar og betri möguleika til framfærslu.

Ég tel að öryrkjar séu ekki einn og samstæður hópur. Það er t.d. rétt að horfa á öryrkja sem aldrei geta aflað sér nokkurra réttinda í lífeyrissjóðum, þeirra sem fæðast til örorku, sömuleiðis þeirra sem verða öryrkjar snemma á atvinnuferli og síðast en ekki síst þeirra sem detta út af vinnumarkaði vegna slysa eða annarra þátta eða veikinda seinna á starfsævinni. Þetta þarf að horfa á í hlutum, tel ég. Ég held að það verði betri lausn á því að horfa á þetta í hlutum en ekki steypa alla í sama ferli og að það sé hægt að auka virkni fólks til starfa og þátttöku í samfélaginu.

Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.