146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

kjör öryrkja.

[16:10]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum kjör öryrkja og ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur, fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Ég vil byrja á að segja hversu mikilvægt það er að sátt verði milli forystu og grasrótar Öryrkjabandalagsins og stjórnvalda við innleiðingu á nýju kerfi vegna greiðslu örorkubóta. Mikilvægt er að þegar þetta nýja kerfi verður komið á verði skilgreint og talað um hver ábyrgð ríkis verði, hver ábyrgð atvinnulífsins verði og annarra þátta upp á það hvernig atvinnulífið og samfélagið eigi að spila með nýjum kerfisbreytingum.

Ég ítreka mikilvægi þessarar sáttar og þess að þessar kerfisbreytingar komist á, sérstaklega ef við erum að horfa á þá launaflokka sem liggja undir fyrir öryrkja í því nýja kerfi sem unnið var að því að reyna að koma á, að við náum að sameina þessa launaflokka og minnka skerðingar, að krónu á móti krónu skerðingu verði hætt.

Nauðsynlegt er líka að nægt fjármagn fylgi með til að breytingar geti átt sér stað. Í nýrri ríkisfjármálaáætlun nýrrar ríkisstjórnar er þó ekki það fjármagn að finna, ég finn það a.m.k. ekki. Ég bið hæstv. félagsmálaráðherra að gera okkur hv. þingmönnum og öðrum grein fyrir fjármununum og hver kostnaðurinn er á bak við þetta nýja kerfi.

Ég verð einnig að lýsa áhyggjum mínum yfir aukningu á nýgengi örorku. Við sjáum margt ungt fólk koma inn á örorku núna, margt hvert sem á við félagslega erfiðleika að stríða. Ég árétta í þessari stuttu ræðu nauðsyn þess að við vinnum betur að forvörnum, bætum aðgengi að sálfræðingum og styttum biðlista eftir greiningum. Einnig vil ég minnast á snemmtæka íhlutun í skólakerfinu sem getur skipt gríðarlega miklu máli í að hjálpa einstaklingum að verða (Forseti hringir.) virkir þátttakendur í samfélaginu og líða betur, sem skiptir öllu máli.