146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

kjör öryrkja.

[16:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir þessa umræðu. Hæstv. ráðherra minntist á fjölgun öryrkja og ég ætla ekki að þrátta við hann um þá prósentutölu þótt ég hafi upplýsingar um aðra tölu. Ég minni á að það er ekki við öryrkja að sakast þegar býsnast er yfir fjölda þeirra. Þeir hafa farið í gegnum strangt mat á örorku og haft áhyggjur af afkomu sinni á sama tíma.

Reyndar hafa þeir flestir gengið í gegnum mikla vanlíðan og kvíða í því ferli sem heldur oftast áfram eftir matið vegna þess að lífeyririnn er svo lágur og endar ná ekki saman. Helstu ástæður örorku, auk stoðkerfisvanda, eru geðræn vandamál. Geðræn vandamál eru mun algengari í löndum þar sem ójöfnuður ríkir en í samfélögum sem einkennast af meiri jöfnuði. Það á reyndar almennt við um heilsu og líðan fólks.

Öryrkjar hér á landi búa við flókið almannatryggingakerfi, lágan lífeyri og í sumum tilfellum auk þess niðurlægingu og skömm. Umræðan hefur oft ýtt undir það og þetta er ólíðandi.

Ef okkur er alvara með því að grípa til aðgerða sem virka til að fækka fólki með örorkumat eigum við að stuðla að auknum jöfnuði í samfélaginu. Mér finnst það augljóst, enda er ég jafnaðarmaður, en til að sannfæra aðra styðja rannsóknir þá ályktun að með því að auka tekjujöfnuð sé hægt að bæta félagslega og andlega líðan allra í samfélaginu. Þó að jákvæðar afleiðingar jöfnuðar séu meiri fyrir þá sem minnst hafa njóta þess einnig aðrir sem meira bera úr býtum.

Ég er því ánægð með þá hugsun hæstv. ráðherra að fjárfesta eigi í málaflokknum, vona að sú verði raunin og að við munum öll græða á að bæta kjör öryrkja.

Að lokum vil ég segja að það verður að bregðast strax við neikvæðum áhrifum sem breytingar á húsnæðisbótum hafa á kjör öryrkja. Hækkun húsaleigu á sama tíma, (Forseti hringir.) hvort sem er hjá sveitarfélögunum eða á almennum markaði, og þetta hefur nýlega komið í ljós, hefur afar slæm áhrif á kjör öryrkja, sem slæm voru fyrir.