146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

kjör öryrkja.

[16:15]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég þakka enn og aftur fyrir þessa góðu umræðu. Það er ánægjulegt að fá að taka þátt í henni. Það er alveg rétt að ekki er við öryrkja að sakast um fjölgun öryrkja. Ég held að það sé miklu frekar áminning fyrir okkur sem berum ábyrgð á þessum stuðningskerfum um að þau hafi kannski ekki virkað sem skyldi. Við þurfum að tryggja að þau tryggi ásættanlega framfærslu en það er ekki nægjanlegt, það er ekki lausnin. Við þurfum líka að tryggja að fólk fái stuðning til virkni og stuðning við endurkomu til atvinnu þar sem því verður við komið.

Ég tel að við þurfum að nálgast þetta með miklu heildstæðari hætti. Þegar kemur að geðheilbrigðismálunum, líðan í skóla, þessum leiðum inn á örorkuna, t.d. í gegnum langtímaatvinnuleysi sem við þekkjum, þurfum við að sýna miklu meiri metnað í að styðja fólk til virkni aftur frekar en að leysa bara úr framfærsluvanda þess með úrskurði um örorkubætur.

Ég tek líka heils hugar undir þá umræðu að við mættum alveg tala um þetta með öðrum hætti. Við erum að tala um fólk með skerta starfsgetu, stundum enga starfsgetu. Orðið eitt og sér hefur fengið afskaplega neikvæða hleðslu í umræðunni, sem er miður.

Eins og ég segi þurfum við að nálgast þetta með heildstæðum hætti þannig að stuðningskerfin styðji hvert við annað og við gætum þess, með svipuðum hætti og umræðan er um heilbrigðiskerfið okkar, að stuðningskerfin okkar tali saman, hvort heldur er í geðheilbrigðisþjónustunni, þegar kemur að starfsgetumati og starfsendurhæfingu, og á endanum að snúa þeim aftur til vinnu sem hægt er, að fólk detti ekki á milli skips og bryggju í þeim efnum, að það þurfi ekki að búa við óttann um að missa framfærslu á vegferð sinni í gegnum þessi úrræði þannig að við náum utan um vandann með sæmilega heildstæðum hætti.

Við þurfum líka að horfast í augu við að við séum oft og tíðum með ranga hvata í þessu kerfi. Það er alveg rétt að króna á móti krónu er alveg afskaplega óheppilegt kerfi þegar við erum að (Forseti hringir.) reyna að hvetja til aukinnar virkni, aukinnar atvinnuþátttöku. Þetta þurfum við að endurskoða.

Við þurfum líka að horfa til þess hvernig við styðjum við lágtekjuhópa, óháð því hvaðan tekjur þeirra koma, að við séum ekki með ranga hvata þar heldur þegar kemur að spurningum um kostnað. Við vitum að þetta verður kostnaðarsamt kerfi. Það er talið í milljörðum að fara í gegnum þessar endurbætur. Við höfum í nýrri ríkisstjórn einvörðungu lagt fram nýja ríkisfjármálastefnu, krónur og aurar eru ekki komin fram enn þá, en við höfum talað mjög skýrt um að við munum forgangsraða ríkisútgjöldum í þágu heilbrigðiskerfis og velferðarkerfis. Þetta er liður í því og við munum tryggja að þarna fáist nauðsynlegt fjármagn.