146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

starfshópur um keðjuábyrgð.

69. mál
[16:27]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni andsvarið. Það má eiginlega segja að þörfin fyrir þingmál af nákvæmlega þessu tagi verði sífellt brýnni hreinlega frá ári til árs. Þetta er eitt af því sem einkennir íslenskan vinnumarkað í sífellt ríkari mæli eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel af vettvangi sveitarstjórna, að ná utan um þetta með heildstæðum hætti, þessa stöðu.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum átt í samtali við verkalýðshreyfinguna og höfum lagt áherslu á það á okkar flokksráðsfundum undanfarið að ræða sérstaklega hvað sé mest aðkallandi í íslenskri löggjöf til þess að tryggja rétt fólks og til þess, eins og hv. þingmaður komst að orði, að tryggja heilbrigði þessa verktakamarkaðar sem auðvitað styður við góða og heilbrigða atvinnustarfsemi í landinu.

Mér vitanlega hefur þetta ekki verið rætt áður með svona formlegum hætti eins og gert er með þessari tillögu. En eins og hv. þingmaður hefur tekið eftir og komið hefur fram er í tillögunni lagt til að kalla fulltrúa þessara aðila að borðinu, þ.e. fulltrúa verkalýðsfélaga og verkalýðsheildarsamtaka, en líka Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins og svo skattyfirvalda til þess að stilla saman strengi um það hvað það er nákvæmlega í löggjöfinni sem þarf að skoða.

Það kæmi mér ekki á óvart að fyrir hendi væri þekking og skoðun á þessum málaflokki í því ráðuneyti sem fer með vinnumarkaðsmálin. Mér finnst raunar mjög líklegt að svo sé. En þessari tillögu er ætlað að hvetja til þess að Alþingi sammælist um að við yrðum Stjórnarráðinu stuðningur í því að hefja smíði viðunandi löggjafar á þessu sviði.