146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

58. mál
[16:48]
Horfa

Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni fyrir andsvarið. Það var mjög fróðlegt að hlusta á hann.

Það er okkur Framsóknarmönnum mjög mikilvægt að skoða það þegar við sjáum tölur sem þessar, m.a. í riti peningastefnunefndar Seðlabankans, sem sýna hversu mikið lægri verðbólga í landinu væri myndum við styðjast við samræmda vísitölu neysluverðs frekar en vísitölu neysluverðs. Okkur fyndist mjög gagnlegt ef stofnaður yrði starfshópur. Það er mjög varfærnisleg tillaga að stofna starfshóp til að kanna kosti þess og galla og sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu og hvaða áhrif það hefði, sem er markmið tillögunnar, að kanna hvaða áhrif það hefði á hina ýmsu þætti í hagkerfinu; lánakjör, vexti, innstæður og ýmsa aðra þætti.

Við ákváðum að fara þessa leið vegna þess að við vitum að það eru mjög skiptar skoðanir um þessa þætti á Alþingi, til þess að við stígum varlega til jarðar og fáum greiningu á því hvað þetta þýðir. Ég trúi ekki öðru en að hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason geti verið okkur sammála um að það borgi sig að skoða þessa þætti og hvaða áhrif þeir hafa. Annað finnst mér vitleysa, ef við ætlum að vera svo þröngsýn að við getum ekki skoðað aðra hluti en þá sem við erum sammála um að séu hið eina sanna og rétta. Þessi tillaga gengur út á að kanna bæði kosti og galla og sjá hvað kemur út úr því.