146. löggjafarþing — 23. fundur,  1. feb. 2017.

upptaka samræmdrar vísitölu neysluverðs.

58. mál
[16:58]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða minnir mig á deilur sem urðu á þingi eðlisfræðinga fyrir nokkrum árum þar sem var deilt um hvort ætti að mæla hitastig með Kelvinkvarða, Fahrenheitkvarða eða Celsíuskvarða, hvaða kvarði væri réttastur. Auðvitað eru þeir allir eins. Þeir gefa mismunandi mæliniðurstöðu en breyta engu um hitastig.

Það er eins með verðbólgu. Verðbólga er verðbólga hvernig svo sem hún er mæld. Það kunna að vera mismunandi viðmiðanir. Svo ég taki þetta vinsæla efni, fasteign, er það ósköp einfaldlega svo að fasteignin rýrnar að mati skattyfirvalda um u.þ.b. 2% á ári. Það er sú neysla sem er verið að mæla í vísitölu neysluverðs eins og hún er mæld hér og kann að verða komin inn í hina samræmdu evrópsku vísitölu, evruvísitölu, sem þingmenn Framsóknarflokksins dást að núna. Það er í sjálfu sér ákveðin lækning á ýmsum röngum hlutum sem eru í kolli þeirra. Ég veit ekki hvort mér tekst að lækna Framsóknarflokkinn af flestum meinum þeirra en þau eru allmörg, eins og alþjóð veit. En það er annað mál.

Þá ætla ég að nefna annað sem við getum þó verið sammála um og það eru vaxtakjör í þessu landi. Það er ýmsum blekkingum beitt og t.d. hefur verið talað á þingi og í skýrslum um óverðtryggð lán og bankar auglýsa óverðtryggð lán. En þegar kjör þeirra eru skoðuð hafa þau á undanförnum 25 árum verið með u.þ.b. 1% lakari lánskjörum fyrir lántaka en svokölluð verðtryggð lán, þ.e. lánskjörin sem eru mæld með hlutlægri mælingu með einhvers konar viðmiðun í verðbólgu hafa gefið skaplegri kjör fyrir lántaka en það sem er mælt með huglægum hætti og huglægum væntingum um kjör. Það eru hin svokölluðu óverðtryggðu lán.

Fyrir guðsglettni örlaganna var ég að skoða lánskjör í dag á lánaformi sem virðist vera býsna vinsælt, ef lánskjör geta eignast vini, þ.e. á yfirdráttarreikningi, á lánum til einstaklinga á hlaupareikningsyfirdrætti. Þar reiknast mér til að lánskjörin séu, svona þegar ég brýt upp raunvexti og verðbólgu, um 9% raunvextir. Það talar enginn um. Þetta kalla ég háa vexti, allt of háa vexti. Það væri kannski ráð að menn reyndu að horfa á grundvallarhlutina. Grundvallarhlutirnir eru þeir að þessir raunvextir eru býsna háir. Við losnum aldrei út úr því að mæla verðbólgu með einhverjum hætti og taka tillit til þess. Ég kynntist þessum vísitölum, þá ég starfaði á Hagstofunni og gaf út hagvísa. Þá voru þessar verðbólgumælingar inni, samræmd vísitala Evrópusambandsins, íslenska vísitalan og síðan án fasteignaverðs. Þetta gaf vissulega mismunandi niðurstöðu, auðvitað mismunandi mælingar. Svo var byggingarkostnaðurinn enn annar hlutur. En ég tel að full ástæða væri til þess að snúa sér að því að rannsaka hvers vegna íbúðaverð heldur áfram að hækka og hækka, sérstaklega í þéttbýli suðvestanlands.

Reyndar var það svo fyrir nokkrum árum að ég kynnti mér fasteignaverðshækkanir í borgum í Vestur-Evrópu og á OECD-svæðunum. Þar var niðurstaða þeirra sem skrifuðu sú að eftir að fasteignaverð hefði náð flugi væri það mjög tregbreytanlegt niður. Það er nákvæmlega það sem hefur gerst hér. Um 1998 tók fasteignaverð ákveðið flug og hefur ekki náð því að lækka miðað við langtímajafnvægi sem virtist hafa verið á árunum 1980–1998. Það er hið raunverulega áhyggjuefni, hvort þetta er vegna lóðaskorts eða af einhverjum öðrum ástæðum. Þetta tel ég að sé hinn raunverulegi vandi en ekki hvernig mælingar á verðbólgu eru framkvæmdar. Vandinn verði alltaf hinn sami.

Eins og ég sagði áðan vara ég við því að menn beiti einhverjum töfralausnum. Töfralausnir eru því miður ekki til í þessu máli. Og að beita þeim blekkingum að óverðtryggð lán séu hagstæðari en verðtryggð hér á markaði, þau eru það ekki. Ef það gerist með handafli að menn fara að færa á milli vísitalna þá breytist hinn þátturinn, þ.e. svokölluðu raunvextirnir. Þetta samkeppnisleysi sem við búum við á fjármálamarkaði er áhyggjuefni.

Það er áhyggjuefni að hér skuli einungis vera þrír bankar og allir með svipuð kjör. En síðan kann einhver að segja: Bíddu, það eru aðrir sem lána, lífeyrissjóðirnir. Jú, lífeyrissjóðirnir lána líka til fasteignakaupa. Það vill til að það er munur á lánskjörum banka og lífeyrissjóða. Munurinn er um 0,376% og það er akkúrat sá munur sem 62 þingmenn skelltu á bankana, það var einn þingmaður sem var á móti. Bankar voru skattlagðir, skuldir banka voru skattlagðar til þess að fjármagna svokallaða leiðréttingu á verðtryggðum lánum. En það er önnur saga og ég ætla ekki að fjalla um það. Það verkefni er nú frá og menn geta velt upp gáfulegheitum þeirrar aðgerðar. Ég ætla ekki að ýfa það upp hér og nú. En eins og ég segi: Þingmenn eiga líka sök í því máli um að hækka vexti um 0,3–0,4%. Þeir eru vafalaust stoltir af því. Ég minni á að það var einn þingmaður sem var á móti þessari skattlagningu sem leiddi til beinnar vaxtalækkunar og hefur hann ekki þegið þakklæti fyrir.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri að sinni, virðulegi forseti.