146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stefnumótun um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu.

[10:49]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Svör mín eru á svipuðum nótum og þau voru við fyrirspurn hv. þingmanns sem spurði hérna á undan.

Það er nú svo að stór hluti af heilbrigðisþjónustu Íslendinga er unninn af einkaaðilum, sérfræðingum og af sjálfseignarstofnunum þegar kemur sérstaklega að öldrunarþjónustu. Þegar kemur að sérfræðingum og aðgerðum á þeirra vegum o.s.frv. eru þær unnar á grundvelli samnings við Læknafélag Reykjavíkur. Það er í sjálfu sér ekki í bígerð og yrði ekki auðvelt að breyta því kerfi yfir nóttu.

Varðandi starfsemi Klíníkurinnar hefur, eins og ég sagði í svari áðan, Klíníkin starfað á grundvelli þessa samnings og tekið að sér einfaldari aðgerðir eins og aðrar læknastofur hafa gert. Til þess að taka að sér stærri og flóknari aðgerðir þyrfti samning við Sjúkratryggingar Íslands og það yrði á vegum ráðuneytisins og undir pólitísku forræði mínu sem heilbrigðisráðherra að fela Sjúkratryggingum Íslands að gera slíka samninga. Það er alveg ljóst að slíkt yrði aldrei gert nema auðvitað eftir lögum og með tilliti til laga, m.a. þeirra laga sem segja að ekki verði gerðar stórkostlegar breytingar öðruvísi en að taka tillit til heilbrigðiskerfisins í heild og getu opinbera heilbrigðiskerfisins, þar á meðal Landspítalans, til að veita þjónustu. Vitaskuld væri slík ákvörðun aldrei tekin á mínum vegum (Forseti hringir.) öðruvísi en að tekið væri tillit til laga að fullu.