146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

könnun á hagkvæmni lestarsamgangna.

[11:07]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. 1. júlí árið 2015 var samþykkt þingsályktun hér á þingi sem hefst svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra, í samstarfi við hlutaðeigandi sveitarfélög og stofnanir, að láta kanna hagkvæmni lestarsamgangna milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur annars vegar og léttlestakerfis innan höfuðborgarsvæðisins hins vegar.“

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir var fyrsti flutningsmaður og meðal flutningsmanna var hv. þingmaður og hæstv. núverandi heilbrigðisráðherra Óttarr Proppé sem stóð hér á undan mér. Meðal þeirra sem samþykktu þessa ályktun var hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Jón Gunnarsson, og reyndar samráðherra hans Kristján Þór Júlíusson. Samkvæmt mínum upplýsingum hefur ekkert verið gert með þessa ályktun, engin hagkvæmnisathugun átt sér stað.

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, aðildarsveitarfélög þeirra, samþykktu í desember samning um að koma upp svokallaðri borgarlínu, hágæðakerfi almenningssamgangna sem þau líta á sem stærsta sameiginlega verkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Í samningi SSH er kveðið á um viðræður við innanríkisráðuneytið, fjármálaráðuneytið og Vegagerðina um formlegt samstarf um sameiginlega fjármögnun og uppbyggingu borgarlínunnar, m.a. með vísun í samkomulag SSH og Vegagerðarinnar frá 17. apríl 2015 og eftir atvikum stofnun undirbúningsfélags. Þetta rímar vel við stjórnarsáttmálann þar sem segir, með leyfi forseta:

„Skoðaður verði möguleiki á samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um „Borgarlínu“.“

Mig langar að spyrja hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra: Mun hann beita sér fyrir því að hagkvæmnisathugunin sem hann samþykkti á þingi árið 2015 verði gerð? Er hæstv. ráðherra sammála því mati að uppbygging borgarlínu sé ein besta fjárfestingin til að létta á umferðarálaginu á höfuðborgarsvæðinu?