146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

könnun á hagkvæmni lestarsamgangna.

[11:09]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn frá hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé. Það hefur verið í gangi vinna, kannski ekki beint undir stjórn ráðuneytis mér vitanlega alla vega, en á Suðurnesjum og hjá fleiri aðilum varðandi mögulegar lestarsamgöngur á milli Keflavíkur og höfuðborgarsvæðisins. Það er fyrirhugaður fundur í ráðuneytinu á næstu dögum með þeim sem hafa staðið að hagkvæmniúttektinni og þeim hugmyndum sem lagt er upp með á þeim vettvangi. Ég mun því bíða með að tjá mig um það í sjálfu sér hvernig mér líst á þessa lausn. Mér finnst þetta allrar athygli vert og mun heils hugar skoða þetta. Það hafa verið um þetta mjög skiptar skoðanir og mismunandi upplýsingar sem hafa komið fram. En þarna liggur einhver vinna til grundvallar sem mér finnst sjálfsagt að við förum vel yfir og skoðum möguleika á.

Varðandi borgarlínuna þá virðist vera mikil samstaða meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um mikilvægi þessa verkefnis. Við munum í ráðuneyti samgöngu- og sveitarstjórnarmála hefja viðræður við sveitarfélögin um þetta mál sérstaklega. Þetta hefur komið fram í viðræðum mínum við einstaka sveitarstjórnarfulltrúa á þeim tíma sem ég hef verið ráðherra, en hann er stuttur eins og menn vita. Ég hef lýst yfir vilja til þess að við setjumst yfir þetta og skoðum þetta. Ég held að hægt sé að stíga mörg mikilvæg skref í því að bæta almenningssamgöngur og að það geti orðið hluti af lausn á þeim samgönguvanda sem við er að etja á höfuðborgarsvæðinu. En það eitt og sér mun ekki leysa vandann að öllu leyti ef horft er til lengri tíma þannig að við horfum ekki á það að eðlilegt sé að slá öllum öðrum framkvæmdum á frest. Það þarf að vera einhvers konar samspil á milli bóta í samgöngukerfinu hér á þessu svæði, samhliða því að við reynum að stíga stór skref á sviði almenningssamgangna.