146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

könnun á hagkvæmni lestarsamgangna.

[11:11]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra skýr og greinargóð svör. Það er gott að heyra að við deilum skoðun á mikilvægi uppbyggingar almenningssamgangnakerfis á höfuðborgarsvæðinu. Það hlýtur að vera okkur öllum kappsmál hér inni, ekki síst þegar við höfum loftslagsmarkmið í huga um að draga úr losun. Það væri gaman að gera könnun á því hverjir í þessum sal komu á bíl í vinnuna, jafnvel einir í bíl, fyrir utan kannski hæstv. ráðherra sem höfðu bílstjóra og voru kannski ekki einir á ferð. Ég veit ekki hvað sú skoðun mundi leiða í ljós um hvernig við stöndum okkur í því að uppfylla okkar þátt í að koma loftslagsmarkmiðinu á.

Mig langar að spyrja hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra beint: Mun hann beita sér fyrir því að fjármunir verði settir í þetta verkefni og þá hvenær?