146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

könnun á hagkvæmni lestarsamgangna.

[11:12]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Auðvitað er það grunnur að því eða hluti af því að huga að því hvernig við getum dregið úr mengun með loftslagsmarkmið í huga að efla almenningssamgöngur þó að þar komi auðvitað margt annað til og þarf að koma til.

Já, það er áhugavert að vita hversu margir koma á bíl í vinnuna. Það er líka áhugavert að vita hvaða skref hafa verið stigin í því á undanförnum árum. Ráðherrann steig sjálfur það skref fyrir nokkrum árum að breyta tiltölulega bensínfrekum bíl sem hann átti, jeppa, í metanbíl og kostaði til þess heilmiklu. Hann er reyndar að reyna að losa sig við þann bíl í dag og kaupa sér eyðslugrennri bíl. [Hlátur í þingsal.] En þetta er auðvitað mjög mikilvægt.

Hvort ég styðji það að fjármunir fylgi í þetta verkefni? Það er augljóst að gerist ekkert án þeirra. Það er augljóst að við erum að fara að taka þátt í þessum viðræðum með það fyrir augum hvernig við getum náð sem bestum árangri með sem hagkvæmustum hætti. En það er margt annað sem kemur þar til. Þetta vekur auðvitað upp spurningar um t.d. ákvörðun borgaryfirvalda sem við höfum lesið um í fjölmiðlum í dag (Forseti hringir.) þar sem á að lækka umferðarhraða á ákveðnum svæðum í höfuðborginni án þess að það sé haft, eftir því sem kemur fram í fjölmiðlum, samráð við lögreglu, Vegagerð og aðra. Sú gagnrýni hefur komið fram m.a. frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda (Forseti hringir.) að þetta geti aukið á mengun af umferð á þessu svæði.