146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[11:14]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, og lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum. Hér er um að ræða eitt þriggja forgangsmála þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á þessu nýhafna þingi.

Kjarni málsins hér er lenging fæðingarorlofs. Það hefur auðvitað verið eitt af meginmarkmiðunum í samfélagsumræðunni um langt árabil, annars vegar að lengja fæðingarorlofið og hins vegar að hækka upphæðina. Eins og þingheimi er kunnugt er áhersla í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar á hækkun fjárhæðarinnar. En þar er í raun lítið fjallað um lengingu orlofsins, þótt ég hafi reyndar lesið viðtal við hæstv. ráðherra í Stundinni, ef ég man rétt, í morgun, þar sem hann víkur orðum að þeim þætti sem er að brúa bilið milli leikskóla og fæðingarorlofs. Það er mál sem við í þingflokki Vinstri grænna og þingmenn í öðrum flokkum raunar líka höfum lagt mjög mikla áherslu á að samfélagið þurfi með einhverju móti að horfast í augu við, að börn á aldrinum frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til leikskólarnir taka við eru í raun og veru á ábyrgð foreldra sinna einna því samfélagið tekur ekki þátt í lífi barnafjölskyldna á þessum aldri, því miður.

Það er náttúrlega óásættanleg staða. Frumvarpið er sett fram í því skyni að freista þess að ná um þetta öflugri umræðu á Alþingi. Ég vonast til þess að þegar við erum með minni og tæpari stjórnarmeirihluta en oft áður sé rými fyrir það að skoða áherslur sem eru ekki endilega áherslur núverandi ríkisstjórnar heldur áherslur sem kunna að eiga liðstyrk þvert yfir línur stjórnar og stjórnarandstöðu eins og gæti verið um þetta mál hér.

Með frumvarpinu eru lagðar til þær breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof að rétturinn hækki úr núverandi níu mánuðum í tólf mánuði í tveimur þrepum, sem sagt á árunum 2018–2019. Verði frumvarpið að lögum mun heildarlengd fæðingar- og foreldraorlofs verða ellefu mánuðir 2018 og tólf mánuðir á árinu 2019. Það er gert ráð fyrir að réttur til fæðingarorlofs skiptist þannig milli foreldra að hvort um sig hafi rétt til fimm mánaða en eigi tvo mánuði sameiginlega og geti skipt þeim með sér eins og verkast vill. Með þessu er farið að tillögum starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum sem fram komu í skýrslu hópsins í mars á síðasta ári.

Ég vil geta þess hér að um þetta kunna að vera ýmis álitamál og ýmiss konar sjónarmið. Á meðan frumvarpið var í smíðum hjá þingflokki Vinstri grænna kom upp sjónarmið um að það kynni að vera nær lagi að fjórir mánuðir yrðu bundnir við hvort foreldri og fjórir yrðu til skiptanna eða annað fyrirkomulag á þessum skiptingum og var þá líka sérstaklega vikið að sjónarmiðum sem varða stöðu einstæðra foreldra og ýmsum öðrum sjónarmiðum sem eðli málsins samkvæmt er ekki fjallað um hér þar sem um frumvarp er að ræða en ég tel fullt tilefni til að hv. velferðarnefnd skoði í meðförum málsins. En hér er þessi kostur valinn, 5–5–2, ef svo má að orði komast, í samræmi við tillögur áðurnefnds starfshóps.

Fæðingar- og foreldraorlof er eins og kunnugt er greitt af Fæðingarorlofssjóði sem er fjármagnaður með tekjum af tryggingagjaldi. Samkvæmt 5. tölulið 3. gr. laga um tryggingagjald renna nú 0,65% af gjaldstofninum í Fæðingarorlofssjóð. Í 4. gr. frumvarpsins sem hér er mælt fyrir er lagt til að þetta hlutfall hækki til jafns við hlutfallslega lengingu fæðingar- og foreldraorlofs. Það er því ekki gert ráð fyrir hækkun á heildartryggingagjaldshlutfalli sem nú er 6,85% heldur er breytingin sem lögð er til einungis hugsuð þannig að stærri hluti af þeim stofni fari til Fæðingarorlofssjóðs og felur því ekki í sér aukna skattheimtu en felur í sér endurskoðun á forgangsröðun verkefna hins opinbera.

Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu var það svo að við efnahagshrunið haustið 2008 þurfti að draga varð verulega úr ríkisútgjöldum, þar á meðal voru greiðslur vegna fæðingarorlofs lækkaðar verulega með því að sett var þak á hámarksgreiðslur. Skerðingar á fæðingarorlofi á árunum 2008–2011 voru alltaf gerðar með því fororði — og sú sem hér stendur átti sæti í þeirri ríkisstjórn sem þurfti að taka ákvarðanir um þessar aðgerðir — að þær yrðu teknar til baka jafn skjótt og hagur ríkissjóðs vænkaðist. Enda hófst endurreisn fæðingarorlofsins þegar í lok ársins 2012 þegar þáverandi velferðarráðherra lagði fram frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, þar sem í senn var gert ráð fyrir hækkun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og lengingu fæðingarorlofs úr níu mánuðum í tólf í áföngum eins og gert er í því frumvarpi sem hér er lagt fram og mælt fyrir.

Frumvarp velferðarráðherra varð raunar að lögum nr. 143/2012, með gildistöku 1. janúar 2013, en þær réttarbætur sem í því fólust voru teknar af með lögum nr. 140/2013, um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014, samanber 3. mál á 143. löggjafarþingi. Þar með sýndu forvígismenn þáverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks afstöðu sína til þessarar aðgerðar á þeim tíma.

Ég vænti þess auðvitað að þau sjónarmið sem hér hafa margoft verið rædd, bæði í aðdraganda kosninga og ekki síður í umræðunni um myndun nýrrar ríkisstjórnar, sjónarmið sem lúta að kjörum ungs fólks, vegi þyngra nú en þau hafa gert um langt árabil, ekki síst vegna þess að við sjáum að staða og kjör ungs fólks er verulegt áhyggjuefni á Íslandi. Við vitum að ungt fólk kýs sér búsetu út frá margs konar þáttum. Einn þeirra er staða á húsnæðismarkaði, annar er Lánasjóður íslenskra námsmanna og möguleiki til menntunar án tillits til efnahags, og hluti af þessu vali, þessari afstöðu til búsetu á Íslandi, er staða smábarnaforeldra, kjörin sem við búum okkar yngstu fjölskyldum.

Það er auðvitað partur af þessari sígildu togstreitu milli sveitarfélaga og ríkisins og spurningarinnar um það hvar kostnaðurinn eigi að lenda, að þetta bil hefur ekki enn verið brúað. En það er jafnframt ekki á herðum nokkurs annars en kjörinna fulltrúa bæði á sveitarstjórnarstiginu til sveita og á höfuðborgarsvæðinu að leysa úr þessum vanda sem er ærinn fyrir fjölskyldur ungra barna og þar með fyrir börnin sjálf.

Virðulegur forseti. Fæðingarorlof er styttra hér á landi en í nágrannalöndunum. Það er skoðun flutningsmanna þessa frumvarps, og ég vænti þess að við eigum fleiri liðsmenn á hv. Alþingi, líka í röðum stjórnarflokkanna, að við svo búið megi ekki standa þar sem hér er um að ræða mikilvægt velferðar- og kjaramál ungra fjölskyldna. Samfélagið hefur ráð á því að bæta kjör og aðstöðu ungbarna og foreldra þeirra. Það er mikilvægt að við lítum á mál af þessu tagi sem kjaramál barna, ekki bara kjaramál foreldra. Það er sérstakt og afmarkað áhyggjuefni á Íslandi hversu miklar líkur eru á fátækt barna, miklu meiri hlutfallslega en í löndunum í kringum okkur. Við eigum að huga sérstaklega að kjörum barnanna sjálfra og því umhverfi sem þau eiga kost á og alast upp við.

Með því að bæta kjör og aðstöðu ungra barna og foreldra þeirra erum við í raun að bæta samfélagið í heild. Þegar allt kemur til alls er þar grunnurinn. Það er þar sem við metum hversu gott samfélagið er, hvernig við búum að okkar minnsta fólki, hvort sem það eru börn eða fólk sem á í einhvers konar vanda. Kannski eru það ágætisgleraugu að setja á nefið í dagsins önn fyrir okkur sem vinnum að löggjafarstörfum að reyna að freista þess að setja okkur í spor þeirra sem ekki hafa völd. Þar eru sannarlega kjör og hagsmunir barna mikilvæg.

Breytingin sem lögð er til í þessu frumvarpi felur í sér breytta ráðstöfun skattfjár. Þar með verður að treysta því að stjórnvöld sjái möguleika á að koma fram þessari forgangsröðun í þágu hagsmuna ungra barna og foreldra þeirra sem þessi hækkun á hlutdeild fæðingarorlofs í tekjum af tryggingagjaldi krefst.

Virðulegir forseti. Ég vænti þess að frumvarpið gangi til hv. velferðarnefndar og fái þar efnislega og ítarlega umfjöllun og vonast auðvitað til þess að þetta mál eigi víðtækan stuðning á Alþingi og verði allra helst að lögum hið fyrsta.