146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[11:32]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Mig minnir að fyrsta þingmál í áherslukippu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á síðasta kjörtímabili, hafi verið þingmál um að brúa bilið, þ.e. að fela velferðarráðherra þá, félags- og húsnæðismálaráðherra, að láta fara fram úttekt á stöðu og möguleikum þess að brúa þetta bil. Á grundvelli þeirrar tillögu, sem var síðan samþykkt á því þingi, þinginu 2013–2014, var lögð fram skýrsla um þessi mál. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, eitt af stóru málunum þar er auðvitað tekjuþáttur, þ.e. útgjaldamöguleikar sveitarfélaganna í þessu efni. Það er auðvitað partur af því sem þarf að styrkja verulega. Þau grundvallarþjónustuverkefni sveitarfélaganna sem lúta að (Forseti hringir.) þjónustu við fjölskyldurnar í landinu eru auðvitað vanfjármögnuð. Það er mjög tortryggilegt að ríkið sé að greiða niður skuldir á sama tíma og sveitarfélögin eru að safna þeim, þegar þetta eru tvær hliðar hins opinbera sem báðum er ætlað að þjónusta fólkið í landinu.