146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[11:36]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir það í fyrsta lagi að lýsa yfir stuðningi við málið. Eins og ég tók fram og fór yfir í framsögu minni áðan tel ég að þetta þingmál eigi strax þegar það er lagt fram töluvert mikinn stuðning á Alþingi. Ég vil líka taka fram að það er lagt fram sem grundvöllur að umfjöllun í þingnefndinni. Ég og við í þingflokki Vinstri grænna viljum freista þess að ná utan um þetta mikilvæga kjaramál fyrir barnafjölskyldur í landinu en er þá ekki nákvæmlega þannig að þessi ákvæði séu höggvin í stein eins og þau eru lögð hér fram. Það gildir til að mynda um þau áhyggjuefni sem hv. þingmaður nefndi. Þetta er auðvitað útfærslumál og þyrfti að fara yfir með skýrum og skilgreindum hætti hvernig ætti að koma til móts við þá hópa sem falla ekki undir kjarnafjölskylduskilgreininguna sem er að sumu leyti mjög íhaldssöm miðað við fjölbreyttar fjölskyldugerðir í nútímasamfélagi. Það er auðvitað eitthvað sem er ekki fjallað um með neinum hætti, hvorki í frumvarpstextanum né í greinargerðinni.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að nefna það sem lýtur að stöðu einstæðra foreldra. Auðvitað er hér um að ræða líka aðrar fjölskyldugerðir sem gætu fallið milli skips og bryggju í svona stífum ramma frumvarpsins eins og það er lagt fram. Ég vænti þess að hv. velferðarnefnd muni skoða þessi sjónarmið og önnur þau sem lúta að fjölbreyttum fjölskyldugerðum.