146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[11:39]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til þess að byrja á því að fagna þessu frumvarpi. Þetta er alveg frábært. Ég hef fundið það á eigin skinni hversu lítill tími er eins og staðan er núna varðandi fæðingarorlof þegar ég eignaðist mitt barn og hafði sex mánuði og horfði fram á það að fara í vinnu eftir sex mánuði og þetta pinkulitla kríli, mér fannst alls ekki tímabært til þess að fara frá henni. Það er ofboðslega mikilvægt að horfa á þetta út frá ekki bara réttindum foreldra heldur réttindum barnsins til þess að hafa aðgang að foreldrunum sínum. Það gleymist oft að horfa á þetta út frá réttindum barna.

Mig langar líka til þess að þakka Elsu Láru Arnardóttur fyrir fyrirspurn hennar sem var í raun og veru það sem ég ætlaði að spyrja um. Sem einstæð móðir spyr ég hvort hv. þm. Svandís Svavarsdóttir sé hlynnt þeirri hugmynd að einstæðir foreldrar geti sótt í allan þennan tíma ef faðirinn er ekki til staðar til þess að taka sína fimm mánuði. Ég geri ráð fyrir því að það hafi verið gert einhvers konar mat á kostnaði bak við þetta frumvarp og velti fyrir mér hvort það mundi hafa einhver afgerandi áhrif á kostnaðinn, hvort það yrði of dýrt eða hvort þetta sé einhver möguleiki. Ég mun alla vega beita mér fyrir því innan velferðarnefndar, og hlakka mjög til að taka til umræðu þar, að sá valmöguleiki verði skoðaður.