146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[11:41]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir jákvæða afstöðu og stuðning við málið í grundvallaratriðum. Eins og fram hefur komið hef ég núna þegar rætt eða nálgast þau sjónarmið er lúta að fjölbreyttum fjölskyldugerðum og ekki síst stöðu einstæðra foreldra eða barna sem fæðast inn í þannig fjölskyldur.

Af því hv. þingmaður spurði hér um mat á kostnaði ef farin yrði sú leið að einstætt foreldri gæti sótt í fæðingarorlofið í heild þá finnst mér fullkomlega eðlilegt að skoða það. Hins vegar þurfum við auðvitað alltaf að gæta að þeim meginsjónarmiðum sem lúta að jafnréttinu, þ.e. að við séum ekki að færa þungann af skyldu föður til þess að nýta sér sitt fæðingarorlof yfir á það að það sé fyrst og fremst verkefni móðurinnar. Þetta er auðvitað þessi togstreita sem við erum iðulega að glíma við þegar um er að ræða þá gerð fjölskyldu að það sé faðir og móðir og barn sem er nýfætt og fæðingarorlofið fer í gang.

Af því að ég hef dálítinn tíma og hér eru hv. þingmenn sem eru í hv. velferðarnefnd þá langar mig til þess að nefna sjónarmið sem er ekki rætt í þessu frumvarpi og heldur ekki í greinargerðinni sem lýtur að fæðingarstyrknum, þ.e. þessum lágu greiðslum fyrir þá sem ekki uppfylla skilyrði til þess að njóta fæðingarorlofs. Það eru þeir sem eru til að mynda stúdentar eða eru í einhverjum öðrum kerfum ef svo má að orði komast og fá alveg rosalega lágar upphæðir til framfærslu í fæðingarorlofi. Ég hef fylgst með því þegar ungt fólk er annars vegar sem er að reyna að tvinna saman framhaldsnám (Forseti hringir.) og að stofna fjölskyldu, að þetta geta orðið löng og mjög efnahagslega erfið tímabil fyrir ungar fjölskyldur.