146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[11:44]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni Svandísi Svavarsdóttur fyrir að koma með þennan punkt sem er mjög mikilvægur líka. Ég átti sjálf í mjög miklum erfiðleikum með það fé sem ég fékk í hendurnar við mitt fæðingarorlof en var bara svo ofboðslega heppin að búa við þannig aðstæður að ég borgaði mjög lága leigu og fékk mikla hjálp frá fjölskyldunni. En það er ekki hægt að ganga út frá því að allir búi svo vel og hafi svona góða aðstöðu. Við verðum að tryggja að lagaumhverfið sé þannig að það sé meiri jöfnuður í samfélaginu og fólk hafi tækifæri til þess að vera með börnunum sínum og ala þau upp og hafi efni á því að eignast börn.

Ég vil taka það fram að ég er mjög hlynnt því að barnið hafi rétt á meiri tíma með föður sínum, það er ofboðslega nauðsynlegt. Ég hlakka til að skoða þetta og fá frekari upplýsingar um málið og sjá hvar við lendum í velferðarnefnd.