146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[11:45]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem koma fram hjá hv. þingmanni um mikilvægi þess að þegar við breytum lögum sé það í áttina að því að draga úr mismunun og auka jöfnuð. Ég held að það sé mikilvægt leiðarstef í öllum okkar lagabreytingum og umbótum á íslensku lagaumhverfi vegna þess að eitt stærsta viðfangsefni nútímans er að draga úr mismunun í samfélaginu. Þess vegna er þetta mál m.a. sett fram, til þess að jafna kjör barnafjölskyldna. Þá þarf auðvitað að horfa sérstaklega til þeirra líka sem er ekki fjallað um í þessu máli og ég nefndi áðan sem eru þeir sem í raun og veru njóta ekki eða uppfylla ekki skilyrði til að njóta fæðingarorlofs samkvæmt þessum lögum heldur fá fæðingarstyrk eða aðra framfærslu sem er langt undir því sem fullnægjandi getur talist til þess að búa börnum öruggt efnahagslegt umhverfi fyrstu mánuði ævinnar.