146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[11:46]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa tillögu og þá umræðu sem hér fer fram og langar að gera grein fyrir meginsjónarmiðum mínum.

Þannig var ef ég lít á svar frá þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Eygló Harðardóttur, núverandi hv. þingmanni, að af börnum sem fædd voru árið 2014 voru það 76% feðra sem nýttu sér einhvers konar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, hvort sem það var fæðingarorlof eða fæðingarstyrkur, á móti nánast 97% kvenna. Það er sirka þrír fjórðu.

Þessi tala á árunum 2004–2007 var 90%. Það hefur orðið, ég ætla ekki að segja annað hrun en okkur hefur farið aftur hvað þetta mál varðar. Því miður er það þannig að okkur fer aftur ár frá ári. Tölur á ári hverju í þessu svari þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra benda til þess að körlum sem taka feðraorlof fækki ár frá ári. Það er miður. Það er þróun sem þarf að snúa við að mínu mati.

Það er spurning hvað olli þessari þróun. Auðvitað var þarna eitt stykki bankahrun sem hafði heilmikil áhrif og ýmislegt sem því fylgdi. Sumt sem var ekki auðvelt að bregðast við og annað sem er kannski einhverjum að kenna. Mér detta þrír þættir í hug. Einn er efnahagsleg áhrif þess að atvinnuleysi eykst og annað kynið hverfur af vinnumarkaðnum í meira mæli en hitt. Atriði númer tvö er lækkun hámarksgreiðslna, veruleg og mikil lækkun. Þar aftur ætla ég ekki að hallmæla þáverandi ríkisstjórn, hún þurfti einfaldlega að gera ýmsa hluti sem henni líkaði ekki endilega við að gera en þurfti af því að uppi var þessi staða í ríkisfjármálum. En í þriðja lagi er það líka sú staðreynd að því miður gerðist það á þeim tíma að Fæðingarorlofssjóður virtist fara í mjög markvissar og harkalegar aðgerðir gegn feðrum sem tóku orlof. Ég þekki það að einhverju leyti á eigin skinni. Í kjölfar fyrirspurnar sem ég sendi þá sem óbreyttur borgari til viðkomandi ráðuneytis kom í ljós að með einum eða öðrum hætti hefði þriðjungur allra karlmanna sem reynt höfðu að taka fæðingarorlof á þeim tíma lent í því að vera krafðir um einhvers konar endurgreiðslu. Þar var hátt hlutfall sjómanna einstaklega dapurlegt. Í flestum þeim málum þegar maður las kæruskjölin var alls ekki um að ræða að einhver væri að þiggja tvöfaldar greiðslur heldur var einfaldlega verið að brjóta einhverjar reiknireglur sem Fæðingarorlofssjóður hafði sett sér. Skömm ríkisvaldsins var nú sú að þetta var allt saman meira og minna — ríkissjóður þurfti að greiða þetta allt saman til baka í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis. Ekki var sú vegferð jákvæð og ekki hjálpaði hún til við þá ímynd að það væri gott fyrir karlmenn að taka fæðingarorlof.

En af þessum þremur atriðum ráðum við einu hvað mest, það eru hámarksgreiðslurnar. Þekkjandi það að hafa gengið í gegnum þetta ferli í tvígang á seinustu árum og talað við kynbræður mína er það upplifun mín að það eru hámarksgreiðslurnar sem eru sú afsökun sem fólk gefur oftast fyrir því að annaðhvort taka ekki feðraorlof eða taka stutt feðraorlof. Meginsjónarmið mín eru þau að það er þar sem við þurfum að leggja meginþungann. Það eru auðvitað margs konar sjónarmið sem togast á hér og þau hafa mörg verið nefnd í ræðum bæði hv. flutningsmanns, hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur sem og annarra. Þau þurfa ekki alltaf að vera mjög samrýmanleg. Það eru sjónarmið um jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði, sjónarmið um réttindi barna, ákveðin réttlætissjónarmið um hvort við eigum að eyða peningum úr ríkissjóði til að greiða hálaunafólki pening fyrir að vera með börnin sín. Það eru ákveðin sanngirnissjónarmið sem hægt er að segja að eigi við. Það eru sjónarmið um að einstaklingar ættu að ráða þessu alfarið sjálfir, að þeir ættu að skipta orlofinu til fulls á milli sín nákvæmlega eins og þeir vilja. Mín meginsjónarmið í þessari umræðu eru þau að stuðla eigi að jafnri stöðu kynjanna.

Af þeirri ástæðu tel ég að fé sé best varið í fyrstu til að hækka hámarksgreiðslurnar verulega. Auðvitað finnst mér eðlilegt að hafa einhvers konar hámark svo að þeir sem eru í allra hæstu tekjuhópunum, svo það gefi nú afkomuviðvörun þegar stóreignamaður eignast börn samkvæmt Séð og heyrt. En þessi 99% eða 95% okkar sem eru þarna einhvers staðar, ég veit ekki hvort ég á að segja „okkar“ lengur, satt að segja, að þau fái undir þessari hámarkssummu svo hún sé ekki mótandi fyrir ákvörðun fólks.

Þetta eru sjónarmið sem hafa auðvitað verið viðruð áður. Ég hjó eftir því þegar ég las umsagnir um tillögur sem bárust á síðasta þingi frá þingmönnum Samfylkingarinnar. Þá kom einmitt umsögn frá Íslandsdeild UN Women þar sem segir, með leyfi forseta:

„Landsnefnd UN Women gerir því að tillögu sinni að sú breyting verði gerð á frumvarpinu að þeim fjármunum, sem augljóslega verða að koma til, eigi markmið frumvarpsins að nást, verði forgangsraðað í þágu hækkunar fæðingarorlofsgreiðslnanna fremur en lengingar orlofsins.“

Ég ætla ekki að láta sem svo að nú sé UN Women sammála mér, því þetta var annað frumvarp og þar var lagt til að þakið yrði hækkað upp í 500 þúsund sem þegar hefur verið gert. Ég vænti þess að sá umsagnaraðili sem og aðrir muni koma með sín álit þegar unnið er að þessu frumvarpi.

En meginsjónarmið mitt er að við ættum að setja langstærsta hluta þeirra fjármuna sem við setjum í þessi mál í að hækka hámarksgreiðslurnar þar til það verði aftur alger meginregla að karlmenn taki feðraorlof að fullu, sína þrjá mánuði og helst meira. Og þegar sú vitundarvakning hafi átt sér stað getum við hugað að því að lengja orlofið.

En ég hef ekki meira um þetta að segja að sinni.