146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[11:56]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að láta vera að svara þriðja parti þessarar fyrirspurnar [Hlátur í þingsal.] hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Varðandi sjálfstæðan rétt þá er það já, mín skoðun, að sjálfstæður réttur karla og kvenna eigi að vera óframseljanlegur. Ég hef líklega viljað ganga töluvert langt í þeim efnum að fjölga ekki þeim undanþágum sem veittar eru frá því meginsjónarmiði þótt fyrir hverja um sig sé oft hægt að færa góð rök fyrir. Vegna þess að jafnrétti og jöfn staða kynja á vinnumarkaði er það meginstef sem ég lít til í þessu máli myndi ég segja að það ætti að vera meginregla að rétturinn sé sjálfstæður og ekki framseljanlegur.

Nú man ég ekki aðra fyrirspurn. (SJS: Þök, hversu lengi.) Já, þök, hversu lengi. Það er sjónarmið. Ég held að það sé rétt, vissulega er hægt að gera hvort tveggja í einu en þá er annað gert á kostnað hins. Ef við ákveðum að lengja orlofið upp í tíu mánuði eða ellefu gætum við hækkað hámarkið minna út frá sömu fjármunum. Það er þá mín afstaða að það eigi fyrst um sinn að setja mestan kraft í að hækka hámarkið.