146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[12:14]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Mér skilst að það sé þannig að þetta fyrirkomulag hafi frekar verið tekið upp á eftir okkur, þ.e. við höfum verið ákveðnir frumkvöðlar í þessu samhengi bæði með lengingu orlofsins og þessa skiptingu á milli kynjanna. Ég játa að ég þekki ekki til hlítar hvernig það er í nákvæmlega í öllum nágrannalöndum okkar. Það er kannski eitt af því sem kemur þá enn og aftur upp í vinnu nefndarinnar, en væntanlega kom þetta fram á sínum tíma þegar lögin voru sett og mér er sagt að nágrannalönd okkar hafi í raun brúkað okkar frumkvæði til þess að reyna að koma til móts við þá jafnréttishugsjón sem liggur til grundvallar fæðingarorlofskerfi okkar. Hér er í rauninni bara verið að reyna að bæta það enn frekar, þ.e. lenging orlofsins snýr auðvitað að því að barnið njóti samvista við foreldra sína til lengri tíma á þessum viðkvæma tíma.