146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[12:15]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að enginn efist um það og það er einmitt gríðarlega mikilvægt að barn fái notið samneytis við báða foreldra. Hins vegar held ég að það sé áhugavert líka að skoða í þessu samhengi, eins og ég kom inn á, hver er reynsla þeirra ríkja sem við viljum gjarnan bera okkur saman við að hafa eins langt fæðingarorlof og raunin er og hvort kynin nýta þann rétt sem þau hafa til jafns. Því ef svo er ekki þá þurfum við auðvitað að hugsa um, alla vega er það þess virði að taka það upp í umræðunni í vinnslunni í framhaldinu, hver áhrifin eru af því fyrir konur, ef við lengjum orlofið, ef þær nýta miklu lengri tíma í fæðingarorlof og eru þar af leiðandi lengur út af vinnumarkaði sem hefur áhrif á samkeppnishæfni þeirra á vinnumarkaði á meðan karlmaðurinn nýtir sér kannski síður þann rétt. Ég held alla vega að það væri þess virði að skoða þetta í vinnslu frumvarpsins í kjölfarið eða bara fyrir okkur almennt að hugsa um þetta.