146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[12:16]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni akkúrat hvað þetta varðar. Það er kannski tilgangur þessa máls, þ.e. bæði að lengja orlofið og að jafna stöðu kynjanna. Það var einmitt eitt af því sem ég sagði í ræðu minni áðan að konur eru lengur utan vinnumarkaðar, það hefur verið tilhneigingin, og það stuðlar áfram að þeim launaójöfnuði sem við búum við og viljum reyna að brjóta upp. Það er tilraun til þess með því að fæðingarorlofskerfið var byggt upp eins og hér var gert og hér er lagt til að verði breyting á af því við höfum dregist aftur úr. Mér skilst að flest Norðurlöndin séu komin með 12 mánuði. Þó að við höfum verið í fararbroddi á þeim tíma sem lögin eru sett þá höfum við dregist aftur úr. Það eru eflaust margar ástæður fyrir því. En núna er staðan í samfélaginu þannig að við eigum að geta gert þetta að mínu mati, ekki síst eru færi á, eins og ég sagði áðan, að styrkja Fæðingarorlofssjóð enn frekar en gert er þrátt fyrir að staðan sé þokkaleg núna til að búa í haginn fyrir framtíðina. Ég tel að við þurfum að gera það til þess að þetta markmið nái fram að ganga og vonast til þess að núverandi ríkisstjórn styðji þetta mál og sjái til þess að sjóðurinn verði til þess bær, ekki bara núna heldur til langrar framtíðar. Í mínum huga er það lágmarkstími að eiga eitt ár í samvistum, þ.e. gefa foreldrum færi á því áður en ungviðið fer á einhverja tiltekna stofnun þó að þær séu alla jafnan frábærar. Ég held að við eigum að gera allt sem við getum til þess að styrkja sjóðinn núna meðan við höfum fjárhagslegt bolmagn til þess að gera það.