146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[12:18]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að ganga svo langt að segja að þetta sé eitt stærsta mál þessa þings, enn sem komið er a.m.k. Í mínum huga er það alveg gríðarlega stórt og mikið samfélagsmál sem hefur margar víddir. Það hefði auðvitað verið fróðlegt að heyra frá fleirum fulltrúum stjórnarflokkanna, með undantekningunni Pawel Bartoszek sem þökk skilið kom inn í umræðuna, hvers við megum vænta í þeim efnum af hálfu núverandi ríkisstjórnar umfram það sem ráða má af stjórnarsáttmálanum. Ég hefði haldið miðað við það að nú er mikil endurnýjun á þingi og mikið af ungu fjölskyldufólki að hér væri full mælendaskrá og umræður yrðu langt fram eftir degi um þetta stórmál. Eins var það að hæstv. ráðherra kom til fundarins fyrr í dag og hefði gjarnan mátt blanda sér í umræðurnar. En það stendur kannski allt til bóta.

Í mínum huga snýst þetta mál um marga nokkuð jafngilda þætti, það á sér margar víddir eða skírskotanir. Við getum byrjað á að ræða þetta sem spurninguna um fjölskylduvænt samfélag, að skapa barnvænt fjölskylduvænt samfélag, umhverfi á Íslandi. Það veitir ekki af. Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að við töpum úr landi ungu menntuðu fólki eða fólki sem fer til þess að sækja sér nám og kemur ekki til baka. Þrátt fyrir efnahagslega uppsveiflu í sex ár er ástandið enn þetta, og hefur reyndar heldur sigið á ógæfuhliðina aftur undangengin tvö ár, að Ísland er nettó að tapa fólki og það er að uppistöðu til ungt fólk sem yfirgefur landið í meira mæli en það kemur til baka. Það ætti að fá okkur til að hugleiða: Er okkur að takast að búa til það fjölskylduvæna barnvæna, umhverfi sem við þurfum að gera ef við ætlum að hafa framtíðarhorfurnar nógu spennandi fyrir ungt fólk?

Ég held að hlutir eins og nákvæmlega þetta, fæðingarorlof og fyrirkomulag stuðnings við ungar barnafjölskyldur, sé ekki síður stór þáttur í þessu en launasamanburðurinn, enda stöndumst við hann orðið alveg þokkalega á nýjan leik, kannski með lengri vinnutíma að breyttu breytanda og lægra tímakaupi en þegar skoðuð eru heildarlaun þá hefur dregið saman, a.m.k. eins og það er reiknað út með núverandi gengisskráningu. Félagsfræðilegar kannanir sýna að þegar fólk er að velta fyrir sér hvar það eigi að setja sig niður þá eru það ekki fyrst og fremst launin sem það horfir á, það spyr um skólann. Er góður leikskóli og grunnskóli á þessum stað? Er vel búið að barnafjölskyldum í því umhverfi sem ég ætla að setja mig niður? Er það tryggt og friðsælt umhverfi o.s.frv.? Það er alveg eðlilegt.

Þegar Bang og Olufsen, það ágæta danska fyrirtæki, ákvað að flytja stóran hluta starfsemi sinnar út á Jótland var það m.a. gert á grundvelli könnunar meðal starfsmanna um hvað þeir legðu áherslu á í því umhverfi sem þeir vildu búa. Mönnum kom nokkuð á óvart að það var ekki endilega að vera inni í Kaupmannahöfn. Nei, það var að það væri góður skóli, það væri heilsusamlegt og gott umhverfi, það væri vel búið að barnafjölskyldum. Þá sögðu menn: Þá er okkur ekkert að vanbúnaði að setja okkur niður á Jótlandi, þótt framleiðslustarfsemin eða stjórnstöðvarnar verði þar. Svona hugsa framsýnir stjórnendur og svona eiga framsýn stjórnvöld að hugsa.

Þetta er mikið jafnréttismál að sjálfsögðu, bæði gagnvart vinnumarkaðnum sem slíkum og einstaklingunum og kynjunum sem í hlut eiga. Það hefur verið rætt þó nokkuð þegar í umræðunni. Þar kemur inn í þetta með að rétturinn sé sjálfstæður og ekki yfirfæranlegur nema að litlu leyti og með skýrum reglum, vegna þess að ef við lengdum fæðingarorlofið úr níu mánuðum í 12 og héldum bara eftir þremur mánuðum sem væru ekki yfirfæranlegir væri hættan sú að annað foreldrið, oftast móðirin, mundi nýta restina af níu mánuðunum og vera þá mun lengur frá vinnumarkaði en faðirinn. Það viljum við ekki. Þess vegna er að mínu mati mjög mikilvægt að færa upp réttinn báðum megin í jöfnum skrefum, hvort sem það eru 5–5–2 eða 4–4–4, það má ræða.

Þetta snýst að sjálfsögðu um réttindi barnsins og það er afar mikilvægur þáttur að börnin eiga rétt á því að foreldrar þeirri geti annast um þau og þeir séu samvistum við þau á þessu afar mikilvæga þroskaskeiði sem fyrstu níu eða 12 mánuðirnir eru, fyrsta árið þar um bil.

Þetta er líka réttlætismál sem snýr að báðum foreldrum. Auðvitað er þetta mannréttindamál einnig frá hlið foreldranna, að sjálfsögðu, að samfélagið tryggi að menn geti átt þess kost að njóta samvista við og vera með barni sínu og axla sameiginlega ábyrgðina. Það má ekki heldur gleyma því að þetta mál var gríðarlega stórt framfaraskref í umræðu um jafnréttismál á Íslandi hvað það varðaði að undirstrika og lögbinda skyldur beggja foreldranna. Það er sameiginlegt verkefni að eignast og ala upp barn. Þar bera báðir jafna ábyrgð. Við erum að reyna að komast í burtu frá gamla tíðarandanum, að það sé fyrst og fremst ábyrgð móðurinnar sem þetta snúist um og faðirinn sé meira og minna laus allra mála þegar hann er búinn að geta barnið. Það er ekki þannig sem við ætlum að hafa þetta.

Þess vegna voru það merk skref sem Ísland tók þegar það eiginlega eitt allra fyrst ríkja, ef ég veit rétt, tók inn þennan sjálfstæða rétt feðra. Það varð síðan öðrum löndum í kringum okkur fordæmi. Það var talað mikið um þetta íslenska módel í þeim efnum. Ég hygg að það hafi verið þannig að slíkur umtalsverður sjálfstæður réttur beggja foreldra eða feðra hafi komið til sögunnar annars staðar á Norðurlöndunum á eftir okkur og hann er núna hluti af grundvallarstefnu þeirra í þessu kerfi. Ég hef fylgst vel með því í Noregi. Þar leggja menn mjög mikið upp úr því að varðveita þessi element kerfisins. Hver einasti ungur faðir á norska Stórþinginu sem eignast barn fer umsvifalaust í fæðingarorlof og tekur út allan sinn rétt því að hann yrði ekki vinsæll pólitískt í Noregi ef hann svikist um það. Menn leggja metnað sinn í það að axla slíka ábyrgð. Vonandi eigum við eftir að sjá meira af ungum feðrum fara í fæðingarorlof héðan af Alþingi.

Þá er rétt að segja frá því, herra forseti, að hér stendur nú sá sem líklega reið á vaðið. Ég hygg að ég hafi verið fyrsti faðirinn á Alþingi sem fór í fæðingarorlof. Það var rétt um áramótin 1998/1999. Hvað var minn réttur þá? Hann var hálfur mánuður. Fyrsta skrefið var ekki beysnara en það að það kom inn einhvern tímann á árunum á undan réttur feðra eða beggja foreldra til að taka fæðingarorlof. Ég held það hafi í fyrstunni bara verið sjálfstæður réttur föðurins sem hann þurfti ekki einu sinni að taka eða hvort hann var jafnvel yfirfæranlegur. Það var allt og sumt, hálfur mánuður.

Mér er þessi hálfi mánuður alveg gjörsamlega ógleymanlegur. Alveg. Ekki af því þetta hafi verið svona mikið nýmæli heldur af því að það var dásamlegt að fá þó frið með barninu í hálfan mánuð og bera ábyrgðina á þeim tíma. Það er ákaflega mikilvægt. Ég held að þessa vegna þurfi að stíga mjög varlega til jarðar.

Ég vil segja inn í umræðuna um stöðu einstæðra foreldra og hvort kerfið eigi að vera sveigjanlegra hvað það varðar að færa réttinn alveg upp í níu mánuði eða heilt ár til hins einstæða foreldris, oftast móðurinnar þá, að þar tel ég að menn eigi að stíga mjög varlega til jarðar. Ég er sammála hv. þm. Pawel Bartoszek um það eins og fleira í þessu máli.

Ég tel að lögin eins og þau eru í dag reyni í öllum aðalatriðum að nálgast mjög málefnalega þau tilvik þar sem það er réttlætanlegt og á að gerast, þ.e. þegar annað foreldrið deyr rétt eftir fæðingu barnsins eða á meðgöngunni, að sjálfsögðu. Þegar barn er ættleitt af einstæðum foreldrum, að sjálfsögðu. Þegar veikindi hindra annað foreldrið í að gegna skyldum sínum að þessu leyti og taka fæðingarorlof, að sjálfsögðu. Ef annað foreldrið er því miður svo ógæfusamt að þurfa að sitja af sér refsidóm eða eitthvað slíkt, að sjálfsögðu. Þessi tilvik eru öll þarna meira og minna og ég held nokkuð vel skilgreind. Þannig að frumvarpið gerir ekki ráð fyrir að breyta því. Að sjálfsögðu má fara yfir það ef það er eitthvað sem er ástæða til að skoða í þeim efnum en ég mæli með því að menn stígi varlega til jarðar til þess að ekki opnist glufur í sjálfan grundvöll málsins, sem er jafnrétti kynjanna og sameiginleg ábyrgð kynjanna og sú staða sem við viljum færa út á vinnumarkaðinn varðandi það að annað kynið sé ekki í lakari stöðu hvað varðar að sækja um störf eða fá framgang í starfi vegna þess að það beri meiri ábyrgð en hitt þegar börn koma í heiminn. Allt þetta þurfum við að hafa í huga í þeim efnum.

Lengingin sem hér er lögð til er að mínu mati gríðarlega mikilvæg ásamt með því að sjálfsögðu að færa upp þökin, því að það þurfum við að gera. Ég er ekki þeirrar skoðunar að við eigum að fara alveg aftur til upphafsins þegar ekkert þak var á þessu og menn fengu 70% af himinháum launum í fæðingarorlof. Það var reyndar fyrir daga ofurlaunanna í aðdraganda hrunsins, en menn sáu fljótlega að það var kannski ekki ástæða til þess, það var full langt gengið, og settu inn þök. Þau voru mjög rúm í byrjun og voru svo eitthvað færð niður og svo verulega þegar harðnaði á dalnum eins og kunnugt er. En að sjálfsögðu eigum við að fikra okkur í áttina aftur til baka.

Mér finnst ekki óeðlileg viðmiðun að þakið sé a.m.k. ekki lægra en 70% af meðallaunum í landinu eða eitthvað slíkt, jafnvel ívið hærra en það. Þá ætti ekki að vera neinum að vera vorkunn og sérstaklega ekki hátekjufólki þótt það lækki tímabundið aðeins í launum eða greiðslum með því að taka fæðingarorlof og axla skyldur sínar að þessu leyti. Gleymum því ekki að þeir sem hafa á viðmiðunartímanum verið á gríðarlega háum launum eru væntanlega að breyttu breytanda betur settir en hinir sem voru á mjög lágum launum. Þess vegna mætti færa rök fyrir því að það væri enn meiri jafnlaunastefna að greiða 100% af viðmiðunarlaununum upp að vissum mörkum og svo færi það niður í 70% og þaðan væri þak. Þá værum við virkilega að hjálpa tekjulægstu hópunum til að búa við óskerta afkomu á meðan þeir væru að koma upp börnum. Það er ekki endilega einu sinni víst að þessi upphaflega útfærsla sé sú besta ef út í það er farið. Ekki stæði á mér og væntanlega ekki þeim sem standa að frumvarpsflutningnum að gera þarna betur.

Ég vil aðeins segja um stuðning við barnafjölskyldur almennt. Hann er lítill á Íslandi. Hann er of lítill á Íslandi, það er alveg á hreinu. Barnabæturnar sem hafa nú verið skertar og eru auðvitað merkilega lágar og að fullu tekjutengdar eru mikið umhugsunarefni hjá okkur. Að einhverju leyti væri eðlilegt að tiltekinn almennur stuðningur við barnafjölskyldur væri óháður tekjum og síðan kæmi viðbótarstuðningur til þeirra sem væru í veikustu stöðunni vegna þess að það er eftir því sem við erum að sækja hér, að það sé sérstaklega tekið tillit til aðstæðna barnafjölskyldna, ég tala nú ekki um þegar mörg börn eru að vaxa úr grasi innan sömu fjölskyldunnar og reiða sig á tekjur eins eða tveggja foreldra.

Það var því miður óumflýjanlegt að skerða eitthvað barnabætur á erfiðleikaárum eftir hrun þótt reynt væri eins og kostur var í því tilviki, eins og öllum öðrum, að dreifa byrðunum með sem félagslega réttlátustum hætti. Ísland hefur fengið ágætiseinkunnir fyrir að hafa siglt í gegnum erfiðleika sín og skorið sig verulega úr hvað það snertir að standa vel vörð um velferðarkerfið á sama tíma. Til marks um það er t.d. úttekt óháðs sendifulltrúa mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sem gaf Íslandi háa einkunn fyrir að hafa staðið sig vel í að tryggja félagsleg réttindi og mannréttindi þrátt fyrir erfiðleika í efnahagsmálum, öfugt við ýmsar aðrar þjóðir sem því miður létu byrðarnar bitna verulega á tekjulágu fólki.

En við komumst að þeirri niðurstöðu þegar leið á kjörtímabilið 2009–2013 að við hefðum þurft að gera betur varðandi barnafjölskyldurnar. Það viðurkenndum við. Kannski vorum við ekki nógu meðvituð um að þær áttu í miklum vanda eins og fleiri. Niðurstaðan af úttektum, upplýsingum frá velferðarvaktinni og úttektum félagsfræðinga var að stórhækka barnabætur á síðari hluta kjörtímabilsins, sem ríkisstjórnin þar á eftir skar því miður niður. Núna eru þær eiginlega svipur hjá sjón því að tekjumörkin, skerðingartekjumörkin, hafa ekki verið færð upp.

Ég held að við þurfum að taka þetta mjög alvarlega og það tengist því sem ég nefndi í byrjun, því hvernig við stöndum okkur í að búa til barnvænt og fjölskylduvænt umhverfi.

Að lokum um fjármögnunina. Þökk sé mikilli vinnuþátttöku á Íslandi og ágætisuppgangi í efnahagslífinu að aftur hefur tryggingagjaldsstofninn styrkst svo myndarlega, kominn vel á annað þúsund milljarða króna, og tiltölulega lágt hlutfall af þeim skattstofni, andlaginu, andlagi tryggingagjaldsins sem er heildarlaunasumman í landinu, launagreiðslusumman í landinu, dugar til að fjármagna þetta. Það hlýtur að vera þannig að við höfum ráð á þó að það væri 1% af launasummunni í landinu til þess að fjármagna myndarlega útfært fæðingarorlofskerfi. Frumvarpið hér gerir ráð fyrir því að innan við 0,9% dygðu til að fjármagna þessa lengingu. Þá ætti ekki að vera mönnum ofverkið, ég segi eiginlega því miður, því að ég vildi að þyrfti hærri prósentu, þ.e. að barneignir væru meiri. Við þurfum líka að huga að þeim þætti, sem einhverjir hafa komið inn á, að þær eru að dragast saman og það eigum við að taka mjög alvarlega.