146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[13:01]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka að nýju hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir andsvarið.

Það hefur verið mjög gaman að fylgjast með umræðu um þetta mikilvæga mál í þingsal í dag og það hafa mjög mörg sjónarmið og vangaveltur komið fram sem gaman verður að taka til efnislegrar umræðu í hv. velferðarnefnd þegar málinu hefur verið vísað þangað eftir þessa umræðu. Þar verður m.a. mjög gaman og fróðlegt að takast á við og skoða möguleikann á gólfi og þaki varðandi greiðslur í fæðingar- og foreldraorlofi.

Ég er sammála hv. þingmanni að þetta er tilbúið frumvarp. Í rauninni væri ekki lengi verið að koma því í gegnum hv. velferðarnefnd. En ég tel mjög mikilvægt, því að við höfum þetta tæki í höndunum, að við skoðum samlegðaráhrif af ýmsum öðrum þáttum eins og hækkun á greiðslum, gólfi, þaki og hvernig er með einstæðu foreldrana. Viljum við koma því inn í fæðingarorlofslöggjöfina eða viljum við að það séu annars konar lög sem taka á því? Þetta er eitt af þeim málum sem eru undir því að búa hér til velferðarfjölskyldustefnu, að við náum að brúa þetta bil sem er mörgum barnafjölskyldum erfitt. Ég segi að lokum: Ég hlakka til samvinnu við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og aðra hv. þingmenn í velferðarnefnd. Takk kærlega fyrir.