146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[13:36]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég vil þakka fyrir afar góða umræðu um þetta mál. Ekki síst vil ég þakka hv. þm. Nichole Leigh Mosty sem er formaður hv. velferðarnefndar fyrir stuðning hennar við málið og hennar jákvæðu orð sem skipta gríðarlega miklu fyrir framgang máls af þessu tagi, en hún væntir þess að ná samstöðu í nefndinni um frumvarpið. Innsýn hennar í þennan málaflokk skiptir þar líka gríðarlega miklu máli, þá ekki síst þau mál sem lúta að viðfangsefni leikskólastigsins. Ég tek undir það sem kemur fram í hennar máli. Þar er auðvitað að mjög mörgu að hyggja og miklu fleiri þáttum en þeim sem eru beinlínis fjárhagslegir. Ekki síst þeim málaflokki sem er í raun kannski enn þá stærri sem er kennaramenntun á Íslandi almennt, að ég tali nú ekki um kjaramál kennara á öllum skólastigum. Það er stórt mál, sem og húsnæðismál leikskólastigsins, ef við erum að tala um þau, rými fyrir hvert barn o.s.frv. Þetta eru allt saman umfjöllunarefni.

Ég vil benda hv. þingmanni og fulltrúum í velferðarnefnd á þá skýrslu sem ég nefndi fyrr í umræðunni þar sem fjallað er sérstaklega um þessa þætti. Frumvarpið sem hér er undir er í raun einn þáttur málsins í heild, einn þáttur í þá veru að leysa málið. Mér finnst vel koma til greina af hendi velferðarnefndar að nefndin sjái það þannig fyrir sér, þ.e. vinni með frumvarpið sem slíkt, sem er náttúrlega breytingar á lögum, en skoði þá alltaf þetta heildarsamhengi og gæti þá hugsanlega verið þinginu leiðsögn í því hvaða skref er hægt að stíga, raunhæf skref, í þá veru að brúa bilið í raun.

Hv. þingmaður talaði til að mynda um skýrsluna sem er til á vegum Reykjavíkurborgar, Samband íslenskra sveitarfélaga hefur fjallað um þetta, þingið hefur fjallað um þetta, ráðuneytin hafa fjallað um þetta o.s.frv. En við komumst aldrei upp úr skýrslufasanum. Við erum alltaf þar og komumst ekki inn í að skilgreina þessi stig, þessar aðgerðir, og hefja þá vegferð að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Eins og hér hefur komið fram í mjög góðri og breiðri umræðu um þennan málaflokk vegast mjög mörg sjónarmið á. Þau eru stundum samhljóða og stundum toga þau hvert í sína áttina. Þetta er eitthvað sem nefndin þarf að fjalla um og ég treysti henni mjög vel í ljósi þess hve 1. umr. er hér yfirgripsmikil til þess að fjalla um þessa þætti. Almenn sjónarmið um jafnstöðu kynjanna, jafnstöðu kynjanna í fjölskyldulífinu, á vinnumarkaði, um réttindi barna sem þurfa að vera miðlæg í allri þessari umræðu, sjónarmið um mannréttindi og mannréttindasáttmálann sem Ísland er aðili að, sem komu fram í máli hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, og skipta mjög miklu máli. Það er m.a. þannig að Ísland hefur undirgengist sáttmála um að staða og réttindi fjölskyldna batni frá ári til árs og við séum að vinna okkur fram á við, að staða fjölskyldna sé betri eftir fimm ár en í dag og betri í dag en var fyrir fimm árum. Og má segja í því efni að við séum í raun og veru enn þá í skuld eftir efnahagshrunið þar sem við höfum ekki náð þeim stað að íslenskar barnafjölskyldur séu í þeim fararbroddi sem þær voru fyrir þann tíma þegar við vorum enn þá leiðandi í þróun í þessum efnum á Norðurlöndum, en höfum núna dregist aftur úr. Það má segja að við skuldum barnafjölskyldum á Íslandi enn þá eftir efnahagshrunið. Við þurfum að líta á það líka með það að leiðarljósi.

Ég vil bara hafa þetta stutt í lokin og enn og aftur lýsa ánægju með góðar undirtektir í þingsal og tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað og lýst því yfir að þeir styðji markmið málsins og vilji leitast við að ná samstöðu um þingmálið sem slíkt, brýna velferðarnefndina í því efni að vinna þetta á tveimur plönum, ef svo má að orði komast, annars vegar þingmálið og lagafrumvarpið, og auðvitað allra helst að afgreiða það samhljóða úr nefndinni og gera að lögum með kurt og pí og sóma fyrir íslensk börn, en ekki síður að líta á þetta sem eitt skref af mörgum í því skyni að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla fyrir íslenskar barnafjölskyldur.