146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[13:44]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sömuleiðis að þessi umræða náði að teygja sig fram yfir hádegi þannig að hv. þingmaður gæti tekið þátt í henni. Einnig vil ég segja almennt að mér finnst mikið fagnaðarefni þegar svona mál er undir að við skulum ná svona öflugri 1. umr. Það hefur því miður þróast þannig í gegnum árin að 1. umr. er veik og umræðan hefst í raun í þingnefnd og verður ekki sterk fyrr en komið er að 2. umr. og afgreiðslu úr nefndinni. Þá eru kannski orðnir til ákveðnir flokkadrættir, eða það getur gerst.

Ég vil því fagna því sérstaklega hversu breið og opin umræðan hefur verið hér, alveg þvert á flokka og stjórn og stjórnarandstöðu og svo framvegis. Mér finnst það skipta miklu máli og það er mikilvægt nesti fyrir hv. velferðarnefnd að hafa alla þá punkta sem komið hafa upp í umræðunni.

Ég vil taka undir þau sjónarmið sem fram komu í máli hv. þingmanns um að réttindi barnsins eigi að vera í forgrunni. Ég held að þau séu í raun mikilvægust, ekki síst vegna þess að börnin eiga sér síður málsvara en fullorðið fólk. Það er þá okkar sem erum kjörnir fulltrúar sem búa til eða skapa lagalega umgjörð fyrir réttindi og skyldur borgaranna, að gæta sérstaklega að þeim sem ekki hafa sterkustu raddirnar í samfélaginu, þar á meðal barnanna.

Að því er varðar vangaveltur hv. þingmanns um greiðslur og uppbyggingu á því öllu saman treysti ég því að hv. þingmaður komi þeim sjónarmiðum á framfæri í gegnum þingmann Pírata í þingnefndinni, því að mér finnst þau allrar skoðunar verð. Það er ein af þeim tæknilegu vangaveltum sem væri alveg rétt að skoða við meðferð og úrvinnslu málsins. En það er líka eftirsóknarvert að kerfið sé sem skýrast og einfaldast.