146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

fæðingar- og foreldraorlof og tryggingagjald.

84. mál
[13:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Algerlega.

Varðandi stöðuna og möguleika á að fá málið samþykkt: Þetta er frumvarp, sem er yfirleitt svolítið þungt. Píratar eru líka með frumvarp um upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra. Við vitum að það er yfirleitt svolítið þungt. En það þýðir ekki að ekki geti orðið góð vinna hérna. Ef menn ná góðri vinnu og samstöðu eru frumvörp oft samþykkt, sér í lagi eitt frumvarp frá þingflokki, miðað við þann óhefðbundna þingmálakvóta sem er til staðar.

Þetta er í rauninni mál sem snýst um tvíþætt markmið. Það snýst um réttindi barns og foreldra annars vegar og hins vegar um jafnrétti. Ég held að það hljóti að vera mjög sterkur hljómgrunnur hjá ríkisstjórninni og öllum að hafa réttindi barns í forgangi. Þar hljótum við öll að vera algerlega sammála. Þá er það jafnréttisvinkillinn. Þegar kemur að jafnrétti á vinnumarkaði er ríkisstjórnin búin að leggja sérstaka áherslu á þann málaflokk, að tryggja hann. Ef maður horfir á meginmarkmið frumvarpsins, hið pólitíska landslag og pólitískar áherslur ríkisstjórnarinnar sýnist mér þetta vera mál sem ætti að geta náð langt og jafnvel vera samþykkt ef menn vinna það í sátt og reyna að vera málefnalegir.