146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:05]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það kann vel að vera að þetta sé ein aðferð við að finna út úr því hvernig við best leysum skipulag í úthlutun kvóta til framtíðar. Ég útiloka það alls ekki. Ég held hins vegar, ljósi þess að við erum að fara af stað með þessa vinnu, sem ég ítreka að ég vona að við getum átt gott samstarf um við allt þingið, það kann vel að vera að þetta gæti verið partur af þeirri endurskoðun, þá held ég að það sé ekki skynsamlegt að samþykkja þetta á þessu stigi heldur hafa það þá, ef vill og næst um það samkomulag og menn stefna í einhverja tiltekna átt, sem hluta af því að innleiða nýtt kerfi sem ætlun okkar er að reyna að ná fram og að um það verði sem best og ríkust sátt. Ég ítreka að þetta er góð hugmynd og gott innlegg í umræðuna en ég er ekki viss um að rétt sé að samþykkja það svona eitt og sér.