146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:06]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta veldur mér miklum vonbrigðum. Ég hefði haldið að flokkar, bæði Viðreisn sem hv. þingmaður tilheyrir og Björt framtíð, hefðu aldeilis stokkið á svona tillögu sem ruggar í rauninni engum bátum, í orðsins fyllstu merkingu, heldur er aðeins viðbótarkvóti tekinn út og boðinn út og við æfum okkur á því að bjóða út aflaheimildir. Þetta er ein af okkar verðmætustu og jafnframt viðvæmustu auðlindum. Um hana hefur staðið styr lengi. Það eru eilífar deilur. Núna er það þannig að það eru íbúarnir í sveitarfélögunum, sérstaklega í sjávarbyggðunum, sem bera kostnað af hagræðingu í greininni. Ef menn meina eitthvað með því að þeir vilji í rauninni gera eitthvað í málinu erum við hér í Samfylkingunni að rétta upp í hendurnar á ríkisstjórninni góða leið. Þess vegna ætti auðvitað að samþykkja þetta frumvarp einmitt á þessu stigi, þannig að á næsta fiskveiðiári verði hægt að byrja að æfa sig á útboðinu. Þetta varðar líka eignarhald fólksins á auðlindinni, að byrjað sé að gera kerfisbreytinguna, í alvörunni tekin skref og að flokkarnir sem hafa haft þetta á stefnuskrá sinni, og fengu fullt af atkvæðum út á, sýni í verki að þeim sé alvara og vilji taka alvöruskref í átt að kerfisbreytingum.