146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:10]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var niðurstaðan að orða þetta svona í þessu frumvarpi og gefa ráðherra tækifæri til að setja reglugerðina, setja viðmiðin. En við erum auðvitað að tala um hæstbjóðanda að teknu tilliti til þessara reglna. Núna er það þannig að það eru skorður við samþjöppun. Mig minnir að það sé 12% sem mest má vera á einni hendi. Það væri engin breyting. Þetta er bara sanngjarnt, þetta er til að koma í veg fyrir að auðlindir safnist á fárra hendur. Við höfum núna í dag tekið tillit til smærri útgerða með afslætti á veiðigjöldum. Við nefnum það. Það er ástæða til að smíða reglur sem taka tillit til þeirra. Og síðan byggðasjónarmiða. Það gæti verið þannig að við bjóðum út kvóta á einhverju ákveðnu landsvæði. En það er hæstbjóðandi á því landsvæði sem fengi úthlutað. Ég er ekki sérfræðingur í útboði og gat ekki smíðað þær reglur sjálf, en það eru hins vegar sérfræðingar til sem sérhæfa sig sérstaklega í útboði á auðlindum. Færeyingar voru með einn slíkan sér til aðstoðar þegar þeir fóru í sitt tilraunaútboð og eru með sérfræðinga til að vinna með sér á breytingunni sem mun taka gildi hjá þeim árið 2018. Auðvitað geri ég og við sem flytjum þetta frumvarp ráð fyrir að þegar reglurnar séu útbúnar sé nýtt sérfræðiþekking. Það er þannig að með reglum um útboð geturðu náð öllum þínum pólitísku áherslum. Það væri auðvitað galið að henda öllu út og segja bara: Sá sem býður best fær. Það myndi ekki uppfylla pólitískar áherslur Samfylkingarinnar frekar en annarra flokka.