146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:33]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka áframhaldandi fyrirspurn. Ég ætla þá að byrja á öfugum enda og tala um hækkandi veiðigjald. Í dag eru liðnar átta vikur af verkfallinu og loðnukvótinn sem gefinn er út er 57.000 tonn, af því fá Norðmenn 40.000 tonn og Færeyingar 6.000 tonn og þá eru eftir 11.000 tonn fyrir okkur. Ég held að það sé ekki líklegt að hægt sé að hækka veiðigjald á uppsjávarflotann miðað við það. Þrátt fyrir það borgar uppsjávarflotinn hærra veiðigjald en hinir. Það er innbyggt í kerfið að hann greiðir hærri gjöld.

Ég held að gjöldin verði alltaf að vera það sem menn ráða við. Hér í þingsal er yfirleitt alltaf byrjað á að ákveða hvað hægt sé að gera mikið fyrir veiðigjaldið, hversu mikið eigi að gera, og svo eru þau sett á. Það þarf auðvitað að taka mið af því hvað útgerðin getur hverju sinni. Ég vil fara varlega í þá skattlagningu eins og aðra. En hún þarf auðvitað að vera sanngjörn. Ég er algerlega sammála því.

Hvort sem menn kalla eftir innköllun á aflaheimildum eða hvaða leiðir menn tala um þar þá held ég að mikilvægast sé að þær breytingar sem við ætlum í á kerfinu séu vel ígrundaðar því að við erum í grunninn með gott kerfi. Við eigum ekki að breyta því nema það hafi jákvæð áhrif á afkomu greinarinnar, fyrir sjómenn, fyrir útgerðina og fyrir þjóðfélagið í hærra veiðigjaldi. Það held ég að sé útgangspunkturinn.

Hvort leiðin er þessi eða önnur er ég ekki svo krítískur á í sjálfu sér. Mikilvægast er fyrir okkur að ná einhverri samstöðu um málið. Það virðist ekki vera innbyggt hjá okkur að ætla að ná samstöðu um sjávarútvegsmálin hér í þinginu. Við virðumst ekki ná henni. Það er vandamálið. Og það verður enn meira vandamál ef við ætlum svo að taka einn og einn þátt út og breyta honum. Þá held ég fyrst að við förum að gata kerfið.