146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:38]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka h. flutningsmanna fyrir fyrirspurnina. Ég mun ekki leggja það til í atvinnuveganefnd að við förum að taka allar tegundirnar inn í þetta frumvarp því að ég hef auðvitað sagt að mér finnst að kvótakerfið sé miklu meira mál en svo að við gerum einhverjar tilraunaútgáfur af því. Ég held að það sé ekki rétt. Það er mjög margt sem við þurfum að skoða, eins og ég er margbúinn að segja hér, en við megum alls ekki gera það með stuttum fyrirvara og að óathuguðu máli. Þetta þarf að sjá hvaða áhrif allt hefur hvað á annað.

Hvort greiðslan fyrir leiguna yrði tekin af uppgjöri á fiskmarkaði, spyr h. þingmaður. Það er reyndar akkúrat sú leið sem ég talaði alltaf fyrir í atvinnuveganefnd, að veiðigjaldið yrði nútímalegt gjald sem væri föst prósenta af verðmæti hverrar tegundar fyrir sig sem væri síðan tekið af við hverja löndun, bara eins og hafnargjöldin. Það þarf ekki nema að bæta við einum lið í reikninginn frá hafnarskrifstofunni til að setja inn veiðigjaldið og það er þá bara rukkað við hvern róður. Þá hækkar það og lækkar eftir framboði þann daginn. Það má líka hugsa sér, og ég veit að Íslandsmarkaður sem sér um öll uppgjör fyrir fiskmarkaðina getur tekið þriggja mánaða meðaltal og reiknað út frá því, sem færist svo alltaf um hvern dag. Ég er ekki á móti slíkri afgreiðslu og teldi hana reyndar mjög eðlilega.

En ég segi hv. flutningsmanni það að mér finnst að við eigum ekki að vera með svona tilraunastarfsemi á kvótakerfinu. Þetta er miklu meira mál en svo. Spor Færeyinga í þessum málum hræða einmitt því að þeir brenndu sig mjög illa á þessu. Við skulum ekki lenda í þeim djúpa pytti.