146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:42]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af nýliðun í greininni. Ég held að við höfum það öll. Og ég er ekkert viss um að það verði nokkru sinni auðvelt að komast inn í þessa grein. Þetta er það fjárfrek grein að það verður mjög erfitt að komast inn. Kvótinn kostar mikla peninga, því miður. Það er ekki á færi margra að byrja með tvær hendur tómar og ætla að kaupa fullt af kvóta. Það er erfitt. Þó að við höfum auðvitað strandveiði og ýmislegt í kerfinu, þennan félagslega þátt, þá er það svolítið að þynnast af því að þeir eru orðnir svo margir sem stunda hana að kílóum á hvern veiðimann fækkar alltaf og afkoman versnar þar líka. Það er auðvitað erfitt.

Ég segi kannski sem lokasvar við framsögumann í þessu máli: Kosturinn við þetta frumvarp er sá að við förum að ræða þessi mál og segja okkar skoðanir. Ég ætla ekki að segja að ein verðmyndun sé betri en önnur. Ég ætla ekki að fullyrða að við í þessu húsi séum alltaf rétta fólkið til að segja hvert veiðigjaldið eigi að vera. Ég hef ákveðnar efasemdir þegar um er að ræða tiltölulega fámennan markað sem væri á útboðum á fiski, ég veit ekki alveg hver verðmyndunin yrði þegar það hefur gerst að útgerðum hefur fækkað mjög mikið og þær eru gríðarlega stórar. Einstaklingsútgerðir eru orðnar afar fáar og trillukarlarnir eru líka í vörn. Ég er ekkert viss um að þótt við samþykktum að fara þessa markaðsleið hefðum við eitthvað meira út úr því. Kannski snýst málið ekki um hvað við höfum út úr þessu en ég held að við þurfum að fara varlega í þær breytingar sem við viljum gera á kerfinu (Forseti hringir.) og þær breytingar sem við ætlum að gera þurfa að vera vel ígrundaðar og við tökum ekki bara eitt út úr og skiljum hitt eftir.