146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[14:59]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Arðsemi til þjóðarinnar snýst ekki aðeins um það hvað ríkið tekur í gjald eða hvernig það skattleggur greinina hverju sinni. Það er bara ekki þannig. Arðsemin er miklu flóknara fyrirbæri. Við þurfum auðvitað öflug félög sem skila arði þannig að einhver vilji fjárfesta í þessari grein. Það er grundvallaratriði. En uppboð út í óvissuna í kerfi sem virkar mjög vel finnst mér mjög mikil áhætta að taka og það að ekki betur hugsuðu máli. Það er það sem ég er að segja.

Við getum alltaf deilt um hvert hlutfallið af arðinum eigi að vera sem rennur í sameiginlega sjóði okkar. Það er önnur umræða í mínum huga. En þessi aðferð er ekki líkleg til þess að greinin beri sig. Það verður enn meiri samþjöppun. Við erum þó enn þá með tæplega 200 útgerðarfyrirtæki í landinu. Þetta verður auðvitað til þess að raska mjög kerfinu með algerri óvissu um að arðsemi fyrir samfélagið verði meiri en í núverandi kerfi. Um það snýst þetta mál.

Ef menn ætla að fara í þessa óvissu — mestu áhættufíklar myndu ekki einu sinni gera það. Ég er mjög undrandi að menn skuli leggja því lið að ekki betur athuguðu máli. Fyrst hv. þingmaður minntist á Færeyjar þá er útboðið eða uppboðið þar með allt öðrum hætti, það var auðvitað opið fyrir gesti og gangandi. Það eru stórar útgerðir úti í heimi sem buðu í þetta. Þetta getur haft áhrif á það sem er tengt atvinnugreininni innan lands, arðsemi af fiskvinnslu o.s.frv., í staðinn fyrir að einhverjir (Forseti hringir.) stórir verksmiðjutogarar úti í heimi vinni þetta.