146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[15:01]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir aðra ágætisspurningu um til hvers þessi útboð séu. Ég myndi halda að þetta væri tilraunastarfsemi. Það er verið að leggja upp með að taka aðeins þá aukningu sem verður á heildarkvótanum og nýta hana í að reyna að skilja eðli þess hvernig svona frjáls markaður getur gengið fyrir sig og hvort hann geti ekki orðið skilvirkari en það kerfi sem nú er til staðar.

Þetta eru tilraunir með frjálslyndi frekar en að verið sé að hvetja til aukinnar samþjöppunar. Ef hv. þm. Brynjar Níelsson hefur mikla trú á því að núverandi kerfi sé gott þætti mér rosalega áhugavert að heyra hvað hann hefur að segja við t.d. íbúa Þorlákshafnar eða annarra byggða á landinu sem hafa misst frá sér kvóta á undanförnum árum.

Það er nefnilega svolítið þannig að þegar við tölum um hagkvæmni og þess háttar getum við ekki aðeins hugsað um hversu mikill peningur skilar sér í sköttum, enda er það í sjálfu sér ákveðið aukaatriði. Aðalatriðið er að það sé til staðar sanngjarnt kerfi sem sér til þess að allir geti komið að greininni með eðlilegum hætti. Það er einmitt það sem vantar í dag.

Ég held að það að leggja í minni háttar tilraunir til að byggja upp reynslu á svona uppboðskerfi og treysta á lögmál frjálsa markaðarins væri ágætisnýbreytni á Íslandi og mér finnst alveg ótrúlega furðulegt að hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins geti ekki hugsað sér að fara út á frjálsan markað. Ég skil það ekki.