146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[15:04]
Horfa

Gunnar Ingiberg Guðmundsson (P):

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir hugmyndafræði frumvarpsins. Mikilvægasti þátturinn í aðgerðum innan fiskveiðistjórnarkerfisins er að mínu mati einmitt nýliðun, bæði í veiðum og vinnslu.

Það er þó áhyggjuefni í orðalagi frumvarpsins að aflaheimildir skuli fara til hæstbjóðanda í einangruðu smáútboði, eins og boðað er hér miðað við síðustu aukningu í þorski. Þá gætu stærstu aðilar innan greinarinnar hæglega yfirboðið þá minni og því aukið misskiptingu innan greinarinnar enn frekar.

Í greinargerð er þó tekið fram að sjónarmið byggða og nýliðun séu markmið ein og sér. Ég tel að með örlitlum breytingum og varnöglum gæti frumvarpið orðið það tól sem stjórnvöld þurfa til að vinda ofan af söfnun auðs og valds innan þröngs hóps sjávarútvegsins á kostnað byggða í landinu. Hægt væri að beita niðurstöðu útboða og fá fram eðlilegri verðlagningu á fiski í verslun tengdra aðila. Verðlagsstofa gæti t.d. tekið mið af leiguverði aflaheimilda við áætlun á kaupverði afla lóðrétts samþættra útgerða og skapað þar hvata til að bjóða ekki of hátt verð fyrir leiguheimildirnar. Það myndi auka möguleika nýliða á að fá hluta kökunnar og eins væri hægt að hvetja til aðskilnaðar veiða og vinnslu.

En annars fagna ég tillögunni og þrautseigju flytjanda fyrir að leggja hana fram í núverandi umhverfi stjórnmálanna.