146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[15:20]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa undarlegu ræðu. Ég heyri að hv. þingmaður gagnrýnir hámarkið til einstakra fyrirtækja. Mig langar til að spyrja hvort hv. þingmaður trúir því að á markaði þar sem keppa margir tugir fyrirtækja sé það eðlilegur hluti hagkerfisins að einstök fyrirtæki hafi ekki bara vel yfir 10% heildarhlutdeild af auðlindinni heldur fái að njóta þeirrar hlutdeildar án þess að borga tífalt gjald.

Tökum bara dæmi um tvö fyrirtæki, annað þeirra borgar 18 kr. á kíló og hitt fyrirtækið borgar 200 kr. á kílóið. Ég spyr hvort hv. þingmanni þyki það eðlileg tilhögun.

Svo langar mig líka til að spyrja hvernig hv. þm. Brynjar Níelsson sér fyrir sér framtíð núverandi kerfis ef fram fer sem horfir. Hversu mörg fyrirtæki gerir hann ráð fyrir að muni starfa í sjávarútvegi eftir tíu ár? Og í hversu mörgum byggðum muni þessi fyrirtæki starfa? Hvað getur hann séð fyrir sér að verði margir starfsmenn þar? Hvað þýðir þetta fyrir byggðarlögin sem eru undanskilin?

Sér í lagi langar mig að spyrja hvað þetta þýði fyrir Vestfirði, fyrir Austfirði, fyrir minni byggðir á Suðurlandi. Hvaða afleiðingar hefur þetta? Hver er framtíðarsýnin sem núverandi kerfi býður upp á sem veldur því að hv. þingmaður hefur svo miklar áhyggjur af því að við förum í minni háttar tilraunir með að búa til einhvers konar réttlátara kerfi sem við getum svo, ef í ljós kemur að þetta var ekki góð hugmynd, bakkað með? Þetta er tilraun sem við erum að tala um, tilraun til þess að reyna að ná einhvers konar réttlæti.