146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[15:24]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri það að rökvillublætið heldur áfram. Það sem mig langar til að spyrja, þó svo að hv. þm. Brynjar Níelsson hafi ekki næga framtíðarsýn til þess að sjá fyrir hverjar verði afleiðingar áframhaldandi núverandi fiskveiðistjórnarkerfis, er hvort hann geti svarað hinni spurningu minni úr fyrra andsvari. Ég vildi fá að vita hvort honum þætti eðlilegt að tvö fyrirtæki á sama markaði sem eru jafnvel að öllu öðru leyti eðlislík, að annað borgi 18 kr. á kílóið fyrir aðgang að auðlind sem hitt þarf að borga 200 kr. á kílóið fyrir. (BN: Er það einhvers staðar svoleiðis?) Já, þetta er leigumarkaðurinn. (Gripið fram í.) Þetta er hreinlega spurning um leigumarkaðinn. Og reyndar eru 200 kr. aðeins of mikið, þetta eru held ég 197 kr. eða þar um bil í augnablikinu, ég fer kannski ekki hárrétt með töluna, en mig langar að vita: Er þetta eðlilegt? Er þetta hinn frjálsi markaður sem hv. þingmaður sér fyrir sér? (Gripið fram í.)(Forseti hringir.)

(Forseti (SJS): Ekki samtal.)