146. löggjafarþing — 24. fundur,  2. feb. 2017.

stjórn fiskveiða.

83. mál
[15:42]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Hv. þm. Brynjar Níelsson fór hér nokkrum orðum um getu sumra fyrirtækja til þess að greiða hærri veiðigjöld en nú er, ekki annarra. Þá er náttúrlega spurningin: Hvers vegna var þá ekki einfaldlega ákveðið að þau fyrirtæki, miðað við eitthvert ákveðið hagnaðarmark, greiddu hærri veiðigjöld? Það hlýtur að vera vegna þess að það átti að hlífa þeim.

Svo langar mig að benda á að ég ræddi um það við framámann í mjög stóru útvegsfyrirtæki í mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi, og spurði hann beinlínis út í þetta. Nú eru það u.þ.b. 15 fyrirtæki sem ráða yfir 50% kvótans. Það er rætt um að þetta sé mjög hagkvæmt, samþjöppunin sé mjög hagkvæm. Ég spurði hann einfaldlega: Hvar eigum við að stoppa? Í 60%? 70%? 80% kvótans? Þessi ágæti maður sem ég ætla ekki að nefna því að hann er ekki hér til staðar, gat ekki svarað þessu. Þetta er auðvitað mergurinn málsins að samþjöppunin er komin langt út yfir öll mörk. Það er ekkert hagrænt í sjálfu sér við það.

Að lokum örfá orð um sjálfbærni. Það er ekki kannski ágreiningur um sjálfbærni aflamarkskerfisins þegar kemur að fiskstofnunum sjálfum, þ.e. náttúrulega þættinum, en það gleymist alltaf í umræðum um sjálfbærni að þættirnir í sjálfbærni eru þrír, ekki bara einn, ekki bara náttúran. Það er félagslegi þátturinn og það er hagræni þátturinn. Menn geta horft á landsbyggðina þar sem menn hafa heflað hægt og rólega burt kvótann sem þar var og spurt sig hvort þetta hafi verið félagsleg sjálfbærni. Ég held ekki. Á sama hátt er hægt að horfa til hagræna þáttarins og spyrja hvort það sé raunverulega hagræn sjálfbærni að reka fiskveiðistjórnarkerfið eins og það er.

Þetta er mitt innlegg í þessar umræður hér í fljótheitum. En ég er alveg sannfærður um það að umræður á þessum nótum skýra málið alls ekki nógu vel.